12. september 2007

Eyðimerkurblómin


Í gær kom talsmaður múslima á íslandi í Kastljósið og reyndi á brotinni íslensku að bera í bætifláka fyrir Islam í kjölfar árása tveggja kvenna á trúarbrögðin á sama vettvangi nýlega.

Umfjöllun Kastljósins hefur verið þeim um megn í markverðum atriðum. Kemur það til af tvennu. Reynsluleysi og stjörnuglýju. Viðtalið við hina ofsóttu og fögru sómalafrú Ayaan Hirsi Ali var ekki sanngjarnt gagnvart Islam. Af einhverjum ástæðum hefur sú stefna myndast að því skelfilegri reynslu af barnsránum og limlestingum sem manneskja (helst kona) hefur gengið í gegnum, því verðugri rýnir verði hún á þær aðstæður sem hörmungarnar áttu sér stað í. Ef dauðvona lungnakrabbameinssjúklingur væri beðinn um álit sitt á reykingum eða altarisdrengur með garnaslaka á kaþólskum prestum væri ekki hægt að reikna með hlutlausri skoðun. Slík viðtöl yrðu alltaf áróðurskennd.

Það er hlutverk fréttamanna að hika ekki við að bera áróðurinn á borð en gæta þess að leyfa neytendum fréttanna að sjá í gegnum hann. Það er misskilningur að nóg sé að leyfa andstæðri rödd að heyrast. Fréttamaðurinn þarf að tryggja að umfjöllunin sé heiðarleg, sanngjörn og ígrunduð. Það réð Kastljós ekki við.

Þótt talsmaður múslima kæmi vel fyrir og svaraði örfáum atriðum stóð fjöldamargt eftir í máli Ali, sem orkar tvímælis. Auðvitað á ekki að setjast niður og rökræða kröftuglega við limlesta konu með dauðasveitir á hælunum, en hún á heldur ekki að fá frítt spil. Fréttaefnið í hennar tilfelli var hennar reynsla en ekki guðfræðileg sýn hennar á Islam. Sýn sem er vafasöm í besta lagi.

Ali segir að undirgefnin sé vandinn í Islam. Islam er því vandinn við Islam. Undirgefni gagnvart Allah leiði þráðbeint til kröfu um undirgefni kvenna gagnvart mönnum. Lausnin sé sú, að fólk (sérstaklega konur) eigi að standa uppi í hárinu á Allah. Vafalaust myndi það leiða til þess að konur stæðu uppi í hárinu á körlum sínum og kjör þeirra bötnuðu. Hún segir að til að gera þetta þurfi ekki trúleysi til, þótt hún sjálf hafi látið af trúnni.

Krafa Ali er grunn og ósanngjörn. Sem barn lenti hún í því að vera alin upp meðal miðaldafólks, sem syrgði glæsta fortíð og smánarlega nútíð með smásmugulegri iðkun fornra siða. Í Hollandi ögraði hún geðsjúku fólki af svipuðu sauðahúsi og fékk það á eftir sér. Hún er að leika lítinn Rushdie. Hún leyfir sér þá ósvinnu að láta eins og þetta setji hana í þá aðstöðu að hafa óbrenglaða sýn á einn af þeim þáttum (að vísu mikilvægan) sem sameinar þessar sjúku smásálir. Islam skiptir vissulega máli þegar kemur að umskurn kvenna og heiðursmorðum en þau eru ekki Islam að kenna og þau eru ekki órofa hluti af grundvallarguðfræði trúarbragðanna.

Að ætlast til þess að fólk láti af undirgefninni gagnvart Allah til að bæta fyrir þennan misbrest ræðst gegn sjálfri grundvallarforsendu trúarinnar. Það er ekki of mikil undirgefni sem veldur þessum hörmungum heldur of lítið af henni. Hryðjuverkamenn, geðsjúkir glæpamenn og sturlaðir fjölskyldufeður fá óhæfuverkum sínum framfylgt vegna þess að þeir setja sig eða aðra menn á stallinn hans Allah. Menn smeygja sér á milli trúandans og guðsins og til að gera það þarf að láta af eigin undirgefni að markverðu leyti.

Þar er ekki hægt að bjóða áhorfendum upp á endalausar áróðursfréttir af Islam. Islam er staðreynd, trúin á rétt á sér. Hana er sjálfsagt að gagnrýna og ræða. En fyrst verðum við að sópa Sophiu Hansen, 911 og Tyrkjaráninu úr kollunum á okkur.

2 ummæli:

La profesora sagði...

amen

Nafnlaus sagði...

Það er rétt sem Ayaan Hirsi segir, vandinn við Íslam er Íslam.. þetta er enginn áróður . Þetta er staðreynd.
Hennar málflutningur beinist að vesturlandabúum , hún er að vara við hættunni og hún gerir sér fulla grein fyrir því íslömskum löndum er ekki við bjargandi.