13. september 2007

Kiljan


Eftir drepleiðinlegan landsleik í gær nennti ég ekki að bíða eftir Kiljunni og fór snemma í háttinn. Vaknaði eiturhress árla morguns og lét það vera með mínum fyrstu verkum að horfa á þáttinn á Rúv-púntur-is.

Fyrsti þáttur Kiljunnar var sparifataklætt Kastljós undir áhrifum frá Silfrinu. Stóri gallinn við dagskrárgerðina er líkamleg leti. Bókmenntir eiga að vera dálítið dýnamískar og umfjöllun um þær má búa yfir ögn af sama krafti. Kvikmyndatakan í Silfrinu var einhæf og þótt Egill reyndi augljóslega að brjóta það upp með röltleiðurum var það andvana fætt.

Ein af ástæðum þess að Egill stökk yfir á Rúv var sú að þar fengi hann sterkara bakland. Hann á að nota þetta bakland. Það vantar meiri kraft í umgjörðina, kvikmyndatökuna og uppstillinguna. Jassa þetta aðeins upp, takk.

Efnislega lofar þátturinn góðu. Spjátrungslegu rýnarnir gætu orðið leiðigjarnir þegar á líður. Reynslan sýnir að það borgar sig ekki að spyrja svona fólk um annað en það hefur raunverulegar skoðanir á. Og engar tvær sálir, sama hve rækilega menntun hefur dulbúið ósvífni þeirra sem orðheppni, geta haft verðugar skoðanir á öllu.

Eins þarf Egill að gæta þess að þátturinn verði ekki ígildi bókarölts um miðbæ Reykjavíkur. Það er ekki nóg að draga gesti og gangandi í settið. Það þarf að stefna hærra en það.

En ofangreindar áhyggjur eru óorðnir hlutir. Hlaupið af stað með örlitlar vísbendingar um bresti. Það er ekki sanngjarnt. Fyrsti þáttur er fyrsti þáttur.

Ég vona að Kiljan dafni og treysti Agli dável til þess. Ég mun vaka eftir þættinum næst.

Rúv fær einnig stóran plús fyrir það að hafa loks hugrekki til að benda Spaugstofumönnum á það, sem þeir eru blindir fyrir sjálfir. Skattfé almennings á ekki að nota í atvinnubótastörf fyrir leikara með ekkert náðarvald. Það var ekki verið að rota síðasta geirfuglinn, það var verið að stinga á kýli. Rúv vissi sem var að í anda framsóknar (sem er augljós á vetrardagskránni) þá hefði verið óráð að halda sínu striki með Spaugstofuna óbreytta. Eins hefði verið óráð að farga henni alveg (eins og Þórhall hefur vafalaust langað), þá hefði karlæga ræflaliðið sem liggur við spena Sjónvarpsins orðið ært – og Spaugstofumenn kynt undir með barlómi.

Ef Þórhallur vill enn bæta dagskrána eru hausar hjá Kastljósinu sem mega rúlla. Og menn eiga að plokka illgresið úr garðinum hjá sjálfum sér ætlist menn til þess að fólk samþykki að plokkað sé úr görðum annarra.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl og bless

Þakka þér fyrir þetta annars ágæta blogg. Leiðinlegt að fyrsta kommentið sem ég skil eftir þurfi að vera til þess að lýsa mig ósammála, en liggur það ekki í hlutarins eðli að svara bara þegar maður finnur sig knúinn til.

(Svo ég minnist nú ekki á það hvernig gagnrýnendur eru gerðir höfðinu styttri hér í kommentakerfinu)

Ég horfi einnig á umræddan þátt á rúvinu. og verð að segja að ég upplifði hann þannig að aldrei var hlutunum gefin tími til þess að ná þroska. Alltaf var hoppað yfir í næsta mál um leið og áhugi manns var að kveikna, um leið og fólkið sem í settinu sat var búið að rumsa út úr sér klisjunum og ætlaði að fara að víkka sjóndeildarhringinn þá var köttað í næsta innskot, í næsta topik.

Eina manneskjan sem fékk tíma til þess að segja frá var hún Vilborg gamla. (Það var næstum eins og hún áttaði sig ekki á því að hún væri í sjónvarpinu...) Enda var saga hennar og ekki síður hliðarvísanir og frásagnarmáti það sem lifði með mér eftir þáttinn.

Það var alltof margt á dagskrá.

En eins og þú segir þá var þetta fyrsti þátturinn og ég býst við því að Egill kíki á upptöku af honum og skerpi á honum þegar fram líða stundir, en vona að sú skerpa leiði ekki af sér Latabæjartempó, öllum þeim sem langar að horfa eða hlusta á umræðu um bókmenntir til armæðu.

Vona annars að þú njótir þín í sófanum næst...

ÞÖA