11. september 2007

Illfygli


Í mörgum góðum bókum er illfygli, einhverskonar erkióvinur aðalhetjunnar. Af þeim er upprunalegastur og illskeyttastur James Moriarty prófessor. Illfygli eru oftast ofurmannleg að burðum en með brenglaðan siðferðisáttavita. Í smáritinu Writing the Effective Villain eru skáldum lagðar þær línur, sem fylgja á í sköpun illfygla.

1. Ekki láta illfyglið hræða þig.
Aðeins hispurslaus og óttalaus nálgun að sköpun illfyglis skilar persónu sem er þess verð að skrifa hana. Ekki halda aftur af þér, leyfðu illskunni að flæða fram.

2. Jafnvel illfygli hafa góðar hliðar.
Allir hafa sínar svörtu og björtu hliðar. Illfyglið verður ekki mannlegt nema þú gefir því mjúka fleti. Þú ert að búa til óþokka en ekki dára.

3. Illfygli aðhafast af ástæðum.
Þú verður að hafa á hreinu hvað knýr illfyglið þitt áfram. Hvatir og langanir þess verða að sjást í athöfnunum.

4. Vertu vakandi yfir bakgrunni illfyglisins.
Illfygli eru af ótal tegundum. Bakgrunnur skiptir máli hvað varðar klæðaburð, talsmáta og athafnir.

5. Ekki ofgera!
Ekki gera illfyglið verra en þörf krefur. Ekki missa þig í að láta það fremja óhæfuverk.

6. Gættu að aðstæðunum.
Illfygli draga dám af aðstæðunum sem þær búa í. Vertu vakandi fyrir þeim áhrifum. Illfyglið þarf að passa inn í samfélagið sem umlykur þær.

7. Þarftu illfygli?
Ekki skapa illfygli nema þess sé raunverulega þörf. Óþörf illfygli þvælast bara fyrir í söguþræðinum.

8. Makleg málagjöld.
Ekki gleyma að láta illfyglið mæta örlögum sínum. Illfygli sem hverfur sporlaust hefur hlotið of góð og máttug örlög. Leyfðu lesandanum að njóta þeirrar ánægju sem fylgir því að sjá illfyglið rúið krafti sínum. Það þarf ekki að drepa illfyglið, aðeins að láta það þjást.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Quilp og Sikes eru sígildir

Nafnlaus sagði...

Mér fannst þreytandi að lesa lýsingar A.C. Doyle á Moriarty. Eilíft verið að staðhæfa að hann væri mikið illmenni, en minna fór fyrir lýsingunum á því hvernig það birtist. "Moriarty er vondur, Moriarty er illskan holdi klædd". Og?

Nafnlaus sagði...

er nokkur nógu ungur enn til að muna eftir Hroða? það var sko illfygli í lagi!

Nafnlaus sagði...

Ólafía er skotin í Ólíver
og Ólíver þú veist hvernig hann er.

Nafnlaus sagði...

Var ekki eitt fyrsta illfygli Vesturlandabúa ( og annarra) sjálfur kölski?

Og varðandi:

5. Ekki ofgera!
Ekki gera illfyglið verra en þörf krefur.

...þá segir í ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar frá manni, sem aldrei vildi halla orði að nokkrum; og þegar hann var sagður vilja bera í bætifláka fyrir sjálfan djöfulinn, þá svaraði hann að bragði: "Hann getur nú ekki verið mikið verri , en hann er sagður vera".