17. september 2007

Sykursæt vella

Innreið mín í poppheima er yfirvofandi, að vísu í mýflugumynd. Þegar ég byrjaði að blogga setti ég mér nokkur skilyrðislaus skylduboð. Eitt þeirra, sem ég hef reynt eftir mesta megni að hlýða (þótt það hafi ekki alltaf verið mér að skapi) er að vera bóngóð við þá sem leita til mín um upplýsingar og viðvik.

Þegar Dr. Gunni vélaði mig til að smyrja nokkra poppsuðandi dægurlagatexta ofan á autt tölvupóstskjal gerði ég það. Útþanin af gómsætri humarsúpu settist ég í hægindastól með fartölvu og dældi frá mér a.m.k. hálfri tylft misslæmra texta, sem flestir innihéldu geðveiki, limlestingar eða morð. Svo barði ég saman eftir pöntun blóðsykurhækkandi vellu um ástir innan um dunka af frosinni, hertri fitu sem Gunni meitlaði til þar til það passaði við álíka upppoppandi lag.

Ég rakst í morgun á draug frá þeim tíma er ég sat í hægindinu. Minnug þess að hafa einhverntíma lesið færslu um undratöluna 42 á Wiki barði ég saman óstuðlaðan óskapnað sem hét bara 42. Auðvitað varð úr illskiljanleg samsuða sem meikar varla sens. En það hefði samt verið gaman (og því var Gunni sammála) að gera textanum skil í, uhum, virðulegri dægurlagakeppni með tilheyrandi sviðsmunum og allt fljótandi í blóði.

En hér er textinn:

42

Stíflaður í báða enda, með skolvatn strítt á milli lenda

iðraverki krampakennda, árið sjötíu og sjö.

Árin sem hann hafði lifað – á barítónum sveittur klifað

uns gat hann ei kroppi bifað – voru fjörutíuogtvö.


Hann var fjörutíu og tveggja, hann Elvis er hann dó.

Það var sama hvað hann rembdist, harðlífi hann dró

– til dauða.


Upp með miklum bægslagangi, fölur, tættur, settur þangi.

Á baki' hans kapteinn Ahab fangi, með kaldar, rotnar tær.

Þær tennur sem hann hafði notið – þreyttur, máður, kappið þrotið,

ótal oft var skutlum skotið – voru fjörtíu og tvær.


Hann bægslaðist áfram, hann gamli Moby Dick.

Hann lifði svona lengi, því húðin hans var þykk

– til dauða.


Elísa með skininn skalla, gekk á götu heyrði kalla

smáveina, hann sá þá varla, þeirra munna ætti' að þvo:

„Koddu skalli, koddu skalli", hrópuðu þeir uppá' palli

Guð þá gerði að blóðmalli, sveina fjörutíuogtvo.


Því guð sendi birni, á eftir krökkunum.

Í skoltum börnin brytjuðu með blóð á mökkunum

– til dauða.



Fyrir trega má taka fram að Elvis dó 42ja, Moby Dick hafði 42 tennur og Guð lét birni myrða 42 smábörn sem móðguðu Elísa, sem hann hafði sérstaka velþóknun á.

3 ummæli:

JIJ sagði...

Með meistara Megas sem innblástur...?

Nafnlaus sagði...

Þetta er fínn texti, það væri synd að lemja ekki saman lagi við hann.

Valtýr/Elvis2

Nafnlaus sagði...

Já, góður bragur fagra Mengella. Þú þarft samt ekki annað en að nostra lítilega við stuðla og höfuðstafi til að hann verði frábær.

Innrímið er í ætt við afhendingu, eða braghendu, og þú þarft svo lítið til að þetta falli allt að stöfum.

Auðvitað verður síðan samið lag...