27. september 2007

Næstum því, en þó ekki


Uggur minn um Kiljuna reyndist á rökum reistur. Þátturinn í gær var afleitur. Raunin er sú að Egill veldur ekki þeim þætti sem hann langar til að skapa. Egill er mini-intelektjúal, afdalaspekingur. Það er enginn broddur í efnistökunum, engin skerpa - aðeins vísir að hvorutveggja. Brumhnapparnir finnast um allt og gefa tilefni til að ætla að eitthvað merkilegt sé að fara að gerast en um leið og manni finnst dýrðin vera að skella á falla silkislæðurnar til jarðar og kotungslegur fjósagallinn blasir við.

Það er ósköp sætt. Misskiljið mig ekki. Kiljan flýtur ofan á göróttum drykk íslenskrar dagskrárgerðar þessa dagana. En það er allt um leið dálítið fánýtt.

Egill er óttalegur Bláskjár og einfaldur í roðinu. Hugsanir hans geisla af honum eins og ljóskeilur af vita. Hvort sem hann er montinn, dapur eða leiður - það sést alltaf á fasi hans, andlitsdráttum og orðfæri. Eins og hjá hreinlyndum hvolpi.

Kátína Egils yfir að hafa fundið þokukennda mynd af trjónunni á Halldóri í Moskvu gaf kátínu smábarns sem hefur unnið smáan, persónulegan sigur ekkert eftir. Smjaðurslegt viðtal við þýska gamansöguhöfundinn var eins og klippt út úr Entertainment Tonight og næstum útilokað var að koma viðtalinu við gömlu fjallageitina á vitrænt plan. Egill og hann voru ekki á sömu tíðni. Kolbrún var skelfilega vond og hafði ekkert fram að færa nema fyrirsjáanlega jámennsku. Yfir öllu var þessi stæki þefur af 101 Reykjavík. Þættirnir hingaðtil hafa engu bætt við það, sem vikulegt kaffihúsaspjall í miðborginni myndu áorka.

Og hvar er svo aðhaldið? Ekki frá íslensku bókafólki. Enda það undantekningarlaust tannlausar hórur sem sitja vambmiklar undir ljósastaur og tæla andans bræður og systur í tilfinningalegt hóprúnk. Það er ekki fyrr en Egill verður búinn að særa nokkrar af þessum hórum að fjandinn verður laus. Og aðhald má ekki vera knúið áfram af hatri og særðum egóum.

Egill verður að víkka sjóndeildarhringinn, rífa sig upp úr miðborginni og ganga undan skugga útgáfufélaganna. Eistun þurfa að ganga niður á Agli svo hann þori að takast á við fólk í stað þess að sitja eins og búlduleit og kát maddama í teboði.

Meiri kjark, takk.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi orð skulu uppi meðan landið er byggt.