12. júlí 2007

Vantrúin hleður fjöll

Fólk, sem trúir einlægt á guð biflíunnar, er þrennskonar. Það er hrætt, grunnhyggið eða lasið. Byrjum á grunnhyggna fólkinu.

Til er kenning, sem útskýrir deja vu þannig að um sé að ræða nokkurskonar tölvufrost, þ.e. að eitt augnablik detti maður út og það þurfi að endurræsa vitundina. Þá geti það gerst, að skynjun, sem var í vinnsluminninu þegar frostið kom, lendi óvart á harða diskinum. Hoppi á milli minna. Síðan byrjar vinnsla á ný en þar sem næsta skynjun eftir hrunið er afar áþekk þeirri síðustu fyrir það, þá rennur upp fyrir fólki að það muni óljóst eftir þessum aðstæðum og atburðarás.

Mér finnst þetta flott kenning. Og jafnvel þótt hún reynist röng, varpar hún ljósi á það, hvers vegna sumt fólk er trúað. Börn læra ung um staðreynir (eldavélin er heit, mamma er eldri en pabbi...) og í hugum þeirra verður til skúffa undir þessar staðreyndir. Mömmur og pabbar, ýmist af síngirni eða hrekkskap, hrúga í þessa skúffu allskyns rugli um jólasveina, álfa, galdra og guð. Þegar við fullorðnumst byrjum við hægt og rólega að sía ofan á þessa hillu. Sáldin hefur misstóra möskva eftir einstaklingum og sumir hafa hana svo þéttriðna að næstum ekkert kemst þar ofaní. Menn bregða á það ráð að raða í hilluna eftir mikilvægi og óvéfengjanleik staðreyndanna. Efst á hrúguna eru settar staðreyndir, sem eru léttvægastar og gætu fokið í næsta byr. Á botninum hvíla þær, sem hafnar eru yfir vafa - og þær, sem eru gamlar.

Við höfum aðeins eina leið til að greina á milli grundvallarsanninda og gamalla sanninda. Hún er sú, að bera slík sannindi saman - og ef þau eru ósamrýmanleg, velja að henda öðru.

Flestir meðlimir Vantrúar, en þessi pistill er á endanum um þá, komust þannig til sinnar vantrúar. Þeir öðluðust einhver ný sannindi og þar sem þeir sátu og röðuðu í staðreyndaskúffuna þóttust þeir sjá, að þetta samrýmdist ekki því sem var fyrir - og hentu því gamla.

Sumt trúað fólk hefur aldrei farið í þennan samanburð. Annaðhvort af því að það hefur ekki lagt í hann eða vegna þess, að það hefur ekki fengið tilefni til þess. Hvorttveggja er til marks um grunnhyggni.

Sumt trúað fólk er hrætt. Einn daginn hefur það uppgötvað að tilvist þess í heiminum er hverful/þjáningarfull og vill með einhverju móti framlengja/bæta hana. Því meiri hörmungar sem dunið hafa yfir hópi fólks, því fleiri trúaðir eru meðal þeirra.

Loks er fólk sem trúir vegna þess að það veit. Guð talar til þess og Jesú felur þeim verkefni. Það fólk er sjúkt.

Allt ofangreint á við um fólk, sem trúir á Guð biflíunnar. Guðinn sem er skilgreindur af Páli postula og hefur persónulegan áhuga á jarðlífinu.

Gáfað fólk sem er trúað, trúir ekki þannig. Það trúir á miklu dýpri en óljósari hátt. Það hefur einhverskonar hugboð um lífstilgang og merkingu á sama hátt og Vantrúaðir hafa hugboð um húmor eða stíl. Og sumir sjá endurspeglun þessa tilgangs, t.d. í orðum Jesú eða þeirri athöfn að biðja bænir. Á nákvæmlega sama hátt og trúlausir sjá endurspeglun húmorsins í myndum Monty Python eða árásum Richard Dawkins á kristna. Myndir Dawkins eru innblásnar af hæðni og húmor.


Fólkið í kringum Vantrú er að stofninum til óþroskað og staðnað í sinni andlegu þrautagöngu. Það sést best á því hve merkileg þeim finnst þau sannindi að guð biflíunnar sé falskur héri. Þeir eru ekki búnir að uppgötva neitt merkilegt. Þeir eru eins og samtök sem nenna að rífast um tilvist trölla, jólasveina eða álfa. Fólk, sem komið er til þroska, myndi aldrei eyða tíma sínum í slíkt bull. Þegar maður svarar slíku fólki er maður að segja að það sé svaranna vert. Vantrúarliðið ber meiri virðingu fyrir fólkinu, sem það hæðist að og sakar um einfeldni, en nokkur annar hópur.

Vantrúarfólkið aðhyllist sín eigin trúarbrögð (og þetta hatar það að heyra) og það eru trúarbrögð félagsvísindanna. Vantrúarfólkið heldur að vísindin hafi lagt þann þekkingarfræðilega grundvöll á síðustu tveimur til þremur öldum að hægt sé að vita af eða á um hluti eins og trú.

Sannleikurinn er sá, að við vitum enn ekkert um grundvöll trúar. Ekki frekar en skopskyns eða tilfinningu fyrir stíl. Trú er staðreynd og hún hefur tilhneigingu til að taka á sig persónulega mynd í lífi fólks. Þessi eða hinn aðilinn er til marks um trú, hann er smurður. Þessi eða hin bókin sömuleiðis, sem og þessi eða hin athöfnin, sbr. bænir.

Hið nákvæmlega sama á við um húmor. Meira að segja Þorgrímur Þráinsson gæti viðurkennt að Denis Leary sé smurður af húmorsandanum.

Barnatrúin er sett í staðreyndaskúffuna þegar við erum óþroskuð, á milli tektar og tvítugs tökum við hana til endurskoðunar og hendum jafnvel og setjum í staðinn eitthvað annað, sem er til marks um hina ólgandi skynsemi sem við þykjumst hafa lært að höndla (frjálshyggja og marxismi eru eins að þessu leyti, kenningarnar fá stuðning af því að vera augljós skynsemissannindi), hér stoppuðu Vantrúarmenn í þroska. Lífið býður upp á meiri þroska en Vantrúarmenn hafa kosið að láta nægja. Þeir eru því grunnhyggnir á sama hátt og þeir sem kosið hafa að deyja upp á sína barnatrú.


Allt gengur þetta auðvitað útfrá því, að það að þroskast og fægja hugmyndir sínar í sannleiksleit, hafi einhvern tilgang. Hvað skyldi ljá því þann tilgang?

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tennis á morgun Ingólfur?

Nafnlaus sagði...

Kemst ekki...

Nafnlaus sagði...

Mikið er annars leiðinlegt að Vantrúarliðið skuli ekki hafa bitið á agnið og byrjað að hamast í athugasemdakerfinu.
Það gengur bara betur næst...

Nafnlaus sagði...

Trúlega er þetta í fyrsta sinn sem ég sé minnst á Vantrú eða trúleysi almennt án þess að Óli Gneisti og Örvitinn verði hamstola og hrópi "RÖKVILLA AD HOMINEM" eða "STRÁMAÐUR".

Nafnlaus sagði...

þeir leggja ekki í gelluna. enda er húm miklu betur að sér í rökfræði en þeir.

Nafnlaus sagði...

ástæðan fyrir því að vantrúarmenn þegja er sú að þeir eru kjaftstopp. þeir hafa aldrei getað fellt annað en dauðar keilur. þegar umræðan fer á hærrs plan sitja þeir eftir.

Nafnlaus sagði...

Ég lít á þetta sem algert feilhögg.

Vantrú gengur fyrst og fremst út á að stöðva hamslausa trúvæðingu samfélagsins.

Hin sjálfsagða og óumdeilanlega staðreynd að trú er þvættingur er auðvitað oft nefnd í því sambandi, en er í rauninni ekki nauðsynleg.

Mengella sagði...

Það var aldrei tilgangur minn að lýsa því yfir að Vantrú væri á villigötum að öllu leyti. Að mörgu leyti er ég sammála Vantrúuðum.

Þú í raun orðar þetta vel. Það, sem Vantrú berst gegn er að mestu leyti óháð trú sem slíkri.

Það sem ég var að ráðast á er sú þroskahamlaða hugsun sem felst í orðunum "Hin sjálfsagða og óumdeilanlega staðreynd að trú er þvættingur".

Það má vel vera að trú sé þvættingur. En hún er staðreynd á nákvæmlega sama hátt og húmor. Húmor er nefnilega þvættingur ef reyna á að færa vísindaleg rök fyrir honum. Eina sem hægt er að segja um hann er, að hann er til. Það er trú líka.

Vanþroski vantrúarmanna (og þinn) sést á rökvillu (sem er skemmtilegt í ljósi aðdáunar Vantrúaðra á rökvillum). Rökvillan er þessi:

F1. X er trúaður og heldur Y fram.
F2. Y er vitleysa.
ergo: Þar sem X heldur fram vitleysu og er trúaður, þá er hlýtur trúin að vera vitleysa einnig.

Nákvæmlega eins og þú sagðir sjálfur.

Það er hægt að stúta því sem Vantrú ræðst gegn, án þess að vísa til trúar. En það er samt oft ranglega gert.

Nafnlaus sagði...

Ég játa á mig ónákvæmni í orðavali. Með "trú" meinti ég ekki hugarástand hins trúaða heldur hinar meintu staðreyndir sem hann heldur fram. Sem sagt Y í yrðingunni að ofan.

Mengella sagði...

Enda hef ég hvergi sagt að rökréttar árásir gegn dogma séu til merkis um vanþroska.

En lífsviðhorf flestra Vantrúaðra er miklu róttækara en það. Þeir hafna trú alfarið og ráðast ítrekað að henni með rökum, sem (eins og þú bentir á) koma trúnni ekki við frekar en að hægt sé að hafna tilvist húmors með því að benda á Spaugstofuna.

Vantrúaðir hafa nefnilega (eins og ég skrifaði) gert þá kvíarvillu í huga sér að þar sem barnatrúin var uppfull af vitleysum, þá beri að hafna trú í heild sinni. Líta gjarnan á sig sem hetjur, fólk sem þorir að lifa í heimi án trúar án þess að fyllast vonleysi.

Trúin á, að halda beri í vonina í guðlausum heimi er trú (hún er ekki skynsemissannindi). Þ.e. í þeim skilningi að þrátt fyrir að það skorti endanleg rök til að fallast á fullyrðinguna, þá sé rétt að gera það samt.

Nafnlaus sagði...

Mikið svakalega finnst mér nú gott að lesa þetta hjá þér mengella. Ég hef reynt að benda Röklausu Fávitunum á vantru.is™ á þetta nokkrum sinnum, t.a.m. í þeirra eigin athugasemdakerfi, en án árangurs.

Þakka þér fyrir að setja þetta svona skýrt fram.


þinni bróðir í trúnni,
A.

Nafnlaus sagði...

Væru trúarhugmyndir ekki í rótina skaðlegar samfélaginu værum við ekki að þessu. Það er þessi barátta við skaðsemina sem Mengella kemur ekki auga á í starfi okkar. Hún gerir okkur upp annan tilgang en við höfum og fremur þar með strámannsrökvilluna.

Það er ekkert að því að benda á rökvillur heldur er það þvert á móti nauðsynlegt til að koma mönnum í skilning um hvar þá ber af leið í því sameiginlega keppikefli rökræðenda að komast að haldbærri niðurstöðu.

Við erum eins og tóbaksvarnarráð eða Amnesty þegar kemur að því að benda á skaðsemi trúarhugmynda. Ég get ekki séð að það sé neitt þroskaheft við slíka hugsjónabaráttu. En auðvitað getur vel verið að við séum að berjast við vindmillur, að skaðsemin sé aðeins ranghugmynd í okkar eigin haus. En þá þarf bara að sýna okkur fram að á svo sé í stað þess að koma bara með einhverjar óljósar fullyrðingar um þroskaskerðingu.

En auðvitað er margt gott í grein Mengellu, enda gellan bæði skynsöm og gagnrýnin í hugsun. En myndi í hennar sporum ekki vera svona viss um að ekki sé hægt að fjalla um og skilgreina grundvöll húmors og stíltilfinningar. Á hvaða rökum byggir hún eiginlega þessa afstöðu?

Mengella sagði...

Birgir.

Ég kem vissulega auga á skaðsemina. Enda er ég málefnalega áreiðanlega sammála Vantrúuðum um flesta hluti.

Okkur greinir á um eina grundvallarforsendu. Þið rekið skaðsemina til trúar, ég rek hana til almennrar, mannlegrar heimsku.

Strámannsrökvillan er gripin úr lausu lofti, ég gerði ykkur aldrei upp tilgang, ég greindi einfaldlega hugmyndafræðilegan grundvöll margra sem koma að Vantrú. Það er ekki það sama.

Ég er að fjalla um það, sem kristallast kannski best í því sem Elías missti út úr sér og nú þú, þegar þú segir að trúarhugmyndir séu í rótina skaðlegar samfélaginu.

Trúarhugmyndir sjáðu, ekki iðkun trúarbragða.

Þetta er órökrétt niðurstaða, knúin fram af glámskyggni. Þið getið ekki greint á milli trúar og trúarbragða. Þið fordæmið og hafnið trúnni vegna þeirra hluta sem framkvæmdir eru í nafni hennar. Þrátt fyrir það, að vita jafnvel og ég, að a.m.k. 90% af því sem þið berjist gegn er illsamrýmanlegt við sjálfan grundvöll þeirra trúarbragða sem vísað er til.

Ég segi aðeins, að gáfað fólk geti vel hræsnislaust haft trú. Og það er þroskamerki að átta sig á því. Trú á tilgang með lífinu, trú á tvíhyggju varðandi sál og líkama, trú á merkingu með jarðlífinu, trú á eitthvað meira en blasir við. Og að þessi trú geti verið sprottin af nákvæmlega eins ástæðum og sannfæra mann um að tónlist sé mikilvæg, nú eða húmor.

Síðan getur þetta trúaða fólk fundið samsvörun í t.d. kristni eða Islam og hafið iðkun þeirra trúarbragða. Og allt án þess að falla í þá gryfju að halda að trúarritin eða prestarnir séu óskeikulir.

Tökum hliðstætt dæmi. Einhverjir meðlimir Vantrúar hafa væntanlega dálæti á tónlist. Þeir geta ekki rökstutt þetta dálæti öðruvísi en út frá þeim kenndum sem hlustunin veitir. Segjum nú, að á einhverju tímaskeiði rekist viðkomandi á hljómsveit, sem hann fellur fyrir. Segjum bara að hljómsveitin sé Queen.

Viðkomandi verður áhangandi Queen. Tekur upp hanskann fyrir hljómsveitina ef henni er hallmælt, leggur lykkju á leið sína til að læra öll smáatriði um hana sem á vegi hans verða, klæðist fatnaði með merki hljómsveitarinnar, fer jafnvel að boða dásemdir hennar fyrir öðrum og fyrirgefur henni auðsveipur þegar henni verður á.

Ef grannt er skoðað, er ótrúlega lítill munur á hefðbundum safnaðarmeðlim í kirkju og harðkjarna Queen aðdáanda. Allt sem þú finnur í fari þess trúaða er að finna í fari hins.

Sama gildir um fótboltaáhugamenn. Fótboltaáhugi stjórnast ekki af skynsemi og liðshollusta er goðumlík.

Ódæði er að finna í tengslum við allt þrennt, trú, fótbolta og tónlist. Að ég byrji ekki á stjórnmálum og slíkum ellum.

En ódæðin eru ekki VEGNA trúarinnar, tónlistarinnar eða fótboltans. Þau eru vegna sammannlegrar heimsku, sem skín í gegn í öllum verkum mannanna.

Rökfræði mun seint geta varpað ljósi á eigin undirstöður, það er erfitt (ef ekki útilokað) að færa rök fyrir því að eitthvað sé A eða ekki A á tilteknum tíma en ekki bæði. Það er bara svoleiðis.

Ég enda í bili á litlu dæmi. Segjum að þú sért fangi misyndismanna. Þeir lofa að sleppa þér ef þú selur saklaust fólk í hendur þeirra. Fólkið yrði vafalaust myrt. Ef þú neitar verður þú myrtur. Enginn mun nokkru sinni vita hvað þú valdir og eftir viku verða allir óþokkarnir dauðir (og þú verður að svara strax). Hvað gerir þú?

Ég hugsa að margir svokallaðir trúlausir myndu fórna sér í slíkri aðstöðu. Að minnsta kosti er ég viss um að Vantrúarmenn væru ósammála því að slík fórn væri aðeins á færi trúaðra.

En fyrir hvað fórnaðir þú þér?

Jú, vissu um einhvern tilgang. Að það, að breyta rétt væri mikilvægt fyrir þig persónulega. Jafnvel þegar afleiðingarnar eru að öllu leyti skelfilegar fyrir þig.

Hvað ljær þessari vissu mikilvægi sitt?

Jú, ekkert annað en trú þín á hana.

Við getum svo leikið okkur í freudiskum sálgreiningarleikjum og útskýrt útfrá einhverri kenningu hvers vegna þú myndir haga þér svona. Nú eða sálvefrænt. Eða bara eðlisfræðilega. En um leið myndum við taka hugtökin rétt og rangt út úr jöfnunni. Eða ætti ég að segja gott og illt.

Í lífi okkar skipta hugtökin rétt og rangt máli og í dæminu skipta þau öllu máli, þótt þau geri það ekki í eðlisfræði (nema í merkingunni satt og ósatt). Og trú er hluti af þessu lífi á sama hátt og tónlist.

Og þið ættuð að una öðru fólki þess að trúa, á sama hátt og þið leyfið hverju öðru að vera áhangendur Queen.

Það er heimska sem þið eigið að berjast gegn. Og hún getur birst hvort sem er, með kjánalegu dálæti á lögunum í Mósebókunum eða kjánalegu dálæti á lögunum á Hot Space. Hvort tveggja eru sorgleg börn síns tíma.

Nafnlaus sagði...

Sæl Mengella!

Fyrst um strámannsrökin: Þú segir í greininni:

„Fólkið í kringum Vantrú er að stofninum til óþroskað og staðnað í sinni andlegu þrautagöngu. Það sést best á því hve merkileg þeim finnst þau sannindi að guð biflíunnar sé falskur héri. Þeir eru ekki búnir að uppgötva neitt merkilegt. Þeir eru eins og samtök sem nenna að rífast um tilvist trölla, jólasveina eða álfa.“

Þarna gerirðu því skóna að markmið okkar sé einfaldlega að rífast um tilvist einhvers. Auðvitað er það ekki stefnumið okkar, því þá væri Vantrú svo sannarlega bjánaleg hreyfing. Þetta gengur út á miklu meira en það að trúa ekki.

Svo segirðu um trúarhugmyndir versus iðkun trúarbragða:

"Þetta er órökrétt niðurstaða, knúin fram af glámskyggni. Þið getið ekki greint á milli trúar og trúarbragða."

Það er skaðsemin sem knýr okkur áfram, skaðsemi hugmyndanna sjálfra, ekki bara heimska þeirra sem haldnir eru þeim. Hvað segirðu t.d. um hina kristnu hugmynd um illa anda? Er það ekki hugmyndin sjálf sem fær fólk á ýmsum tímum til að pynta geðsjúklinga, flogaveika og jafnvel börn? Heimska þeirra sem pynta er ekkert óháð hugmyndinni, hún er bein afleiðing af því að hugmyndin er boðuð til að byrja með. Iðkun trúarbragða er hegðun sem stjórnast af þeim trúarhugmyndum sem eru boðaðar. Trúin sjálf er alls ekkert stikkfrí í þessu samhengi.

Þetta viðhorf þitt er ótrúlega algengt í samfélaginu, að fría trúna en kenna skipulögðu trúarstarfinu um. En ég hef fyrir löngu komist á þá skoðun að þessi afstaða sé ranghugmynd.

Trúin er samansafn skoðana, trúarskoðana. Skoðanirnar sem við höfum móta athafnir okkar. Skoðanir geta verið fagrar og uppbyggilegar en líka skaðlegar. Og aldrei eru þær einkamál manna, því þær lita alltaf hegðun okkar og talanda.

Þú segir að heimsku mannanna sé um að kenna og það er rétt ályktað. En hvað er þessi heimska annað en samansafn þeirra skoðana sem ráða hugarstarfinu? Trúarskoðanir eru einfaldlega heimskar skoðanir, enda byggja þær ekki á staðreyndum eða raunveruleika.

Það var trúarskoðun sem sendi menn í krossferðirnar, sú skoðun að til væri heilög borg sem saurguð væri af heiðingjunum sem hana byggðu. Þessi trúarskoðun er ein af þeim skaðlegri sem sést hefur í sögunni. Önnur skaðleg hljóðar upp á áhrif djöfulsins á hugi manna og kostaði ótal mannslíf í nornafárinu.

Við erum í rótina sammála, en ég held að þú áttir þig ekki á því hvað það er sem mótar heimskulegar gjörðir þeirra sem farið hafa fram með skaðlegar athafnir í nafni trúarinnar, nefnilega trúin sjálf.

Meira um allt þetta í þessum greinum: http://www.vantru.is/2005/04/26/00.48/ og http://www.vantru.is/2005/10/28/00.00/

Svo er hér ein um skaðann af hugmyndinni um tilvist illra anda í nútímanum: http://www.vantru.is/2005/08/26/00.00/

Mengella sagði...

Birgir, ég hef flutt rökræðu okkar upp í nýja færslu.