Ekki skipta um ráðherra!
Var það ekki Óskar Wilde sem sagði að rómantískar sálir sem neyðast til að liggja í ræsinu horfi til stjarnanna? Hvernig skyldi Illuga líka það?
Hann finnur ekki eins skarpt fyrir eðjunni á meðan.
Ég ætla að róta aðeins í ræsinu. Stundum er það stíflað og þá þarf að óhreinka sig. Sá sem liggur kjurr og horfir til himins drukknar á endanum.
Í fyrsta lagi á Reynir Traustason ekki að segja af sér. Og sonur hans ekki heldur.
Í öðru lagi á ekki að skipta um ráðherra í ríkisstjórn.
Mannfórnir eru billeg lausn við áföllum og trúnaðarbrotum. Þær eru líka óeinlægar. Þær eru alls ekki til marks um það sem mest er um vert – að einhver fyrirverði sig. Í þeim felst engin von um betrun. Batnandi manni er best að lifa. Enginn batnar við að hopa af hólmi.
Það þarf að kenna Íslendingum að biðjast afsökunar. Og þótt afsökun fari ævinlega fram í núinu þá er hún ekki neitt nema hún horfi bæði til fortíðar og framtíðar. Hún þarf að vera viðurkenning á því sem orðið er og loforð um betrun.
Reynir Traustason þarf að viðurkenna að hann reyndi að beita aflsmunum til að ófrægja ungan mann. Hann þarf líka að viðurkenna að hann lét hagsmuni auðmanna hafa áhrif á ritstjórn sína, að minnsta kosti í orði – ef ekki á borði. Og það stuttu eftir að hann gaf það loforð að slíkt yrði ekki gert. Hann hefur orðið uppvís að ítrekaðri blekkingu.
Loks þarf hann að lofa betrun. Það verður honum erfitt.
Ríkisstjórnin þarf að viðurkenna hvað fór úrskeiðis. Og ef hún ætlar að skipta út fólki þarf að viðurkenna það að það fólk sem fer ráði ekki við verkefnin. Loks þarf að færa rök fyrir því að sá sem kemur í staðinn sé líklegri til að ráða við verkið .
Ef Imba ætlar að skera Björgvin burt þarf hún fyrst að viðurkenna sinn hlut. Hvers vegna miðlaði hún ekki upplýsingum til hans frá Seðlabanka? Er slíkt í stíl við starfshætti ríkisstjórnarinnar?
En drengilegast væri af ríkisstjórninni að boða hreinlega kosningar. Þar myndi hún verða dæmd af verkum sínum. Það virðist nefnilega vera hætta á því að ríkisstjórnin ætli að nota stólaskipti til þess eins að losa sig undan ábyrgð á klúðri undangenginna vikna og missera. Fórna manni fjöldanum til fróunnar. Og þegar kemur að skuldadögum þá standi í forsvari fólk sem ber ekki persónulega ábyrgð.
Ríkisstjórnin þarf að biðjast afsökunar og horfa bæði aftur og fram í þeirri afsökunarbeiðni.
Og við eigum að fá að kjósa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli