13. desember 2008

„[Þ]ví ólýðræðislegri verði meðferð þeirra...“


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók upp á sitt einsdæmi þá ákvörðun í dag að Ísland skyldi í ESB. Ákvörðun sem byltir umtalsvert þeim grunni sem stjórnarsamstarfið hvílir á. Þar með hefur hvorttveggja breyst, allt efnahagsumhverfi þjóðarinnar og grundvallarmarkmið stjórnendanna, og það án þess að Ingibjörg sjái ástæðu til endurnýjunar umboðs stjórnvalda. Þvert á móti raunar, því þessi umbreyting á stefnunni er sett beinlínis með það að takmarki að komast hjá því að leita álits hjá þjóðinni með kosningum.


Hvergi hefur komið fram hvernig aðild að ESB á að vera lækning á þeim krankleika sem herjar á þjóðarlíkamann. Hún er enda réttlætt með því einu að sjúkdómurinn lækni sig ekki sjálfur.
Ingibjörg hefur lært margt frá því hún skreið inn í stjórnmálin fyrir afar löngu síðan. En hún var afar fljót að ná grundvallaratriðunum:

„Eftir minn stutta stans í borgarstjórn er reynsla mín sú, að eftir því sem mál eru stærri, því ólýðræðislegri verði meðferð þeirra, umræða um þau minni og ákvörðun um þau tekin af færri.“ (ISG, 13.7.1982)

Er hægt að toppa slík vinnubrögð betur en að taka ákvörðun um hag heillar þjóðar – um alla framtíð – í einu vetfangi af því manni er orðið heitt á rassinum.


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ingibjörg Sólrún er ekki að taka neina ákvörðun um framtíð þjóðarinnar. Hún er að tala um aðildarviðræður, þær hafa engin áhrif nema til lýðræðislegra kosninga komi.

1. Til að ganga í ESB þurfum við að breyta eigin stjórnarskrá
= 1 kosningar

2. Til að aðildarsamningurinn verði samþykktur þarf að kjósa. (Reglur ESB)
= 1 kosningar

Auðvitað er hægt að sameina þessar tvær kosningar í eina stóra flotta kosningu, en þetta er semsagt ekki mál sem hægt er að 'keyra' í gegn... þjóðin á alltaf eftir að taka lokaákvörðunina.

Skilurðu þetta núna?