Kaldur dagur í helvíti
Kölska hlýtur að vera svalt á tánum. Þessi færsla mun líklega í hugum flestra bera blak af Símoni Birgissyni.
Gamli-Fauskur skrifar pistil til höfuðs Símoni í dag. Segir að Símon hafi ginnt nokkra usual suspects til að trúa því að hann hefði verið ritskoðaður á DV og hætt vegna þess. Boðskapur pistilsins felst í þessum orðum:
Við þurfum ekki bara að vantreysta fréttum, heldur líka skoðunum á fréttum. Halda ró okkar, gefa okkur tíma.
Nú skyldi enginn halda að mér mislíki boðskapurinn. Ég hefði getað sagt þetta sjálf. Það sem mér mislíkar er boðberinn. Það er hræsnin í Gamla-Fauski.
Stundum verður ísing í ljósvaka andans. Menn hafa hneigðir til að nýta ekki til fulls skynsemi sína. Og vissulega hefur sá gamli rétt fyrir sér að ein birtingarmynd þessa vanda er trúgirni. Og önnur er uppþotasækni.
Ein er þó miklu hættulegri en báðar hinar. Hún liggur m.a.s. til grundvallar þeim. Það er sú óþolandi andlega leti sem felst í því að láta tilfinningu stjórna viðbrögðum við staðreyndum. B. Russell útskýrði þetta vel:
„Ef fullyrðing er borin á borð fyrir mann, og sú fullyrðing stangast á við tilfinningu hans sjálfs, þá gaumgæfir maðurinn hana og, sé hún ekki þeim mun meira sannfærandi, hafnar henni. En verði á vegi hans fullyrðing sem virðist réttlæta að hann hagi breytni sinni í samræmi við tilfinningu sína, þá samþykkir hann hana sama hvað forsendurnar virðast hæpnar. Þannig verða flestar mýtur til.“
Þannig verða líka flest upphlaup á netinu til. Ákveðinn hópur vill trúa öllu illu upp á lögguna. Annar öllu illu upp á mótmælendur. Einn hópur sér ritskoðun í hverju horni. Annar sér ritstjórn. Rýnin ræður yfirleitt hvoru megin maður lendir. Og hún ræðst af fyrirframgefinni tilfinningu.
Allt tal Gamla-Fausks um að fólk eigi að vera gagnrýnið á skoðanir fólks á netinu er tilkomið vegna þess að honum mislíkar þegar gagnrýnisleysið bitnaði á honum. Hann er meira en sáttur þegar slíkt gagnrýnisleysi dillar í takt við hans eigin tilfinningu og skoðanir. Fyrir því eru þúsund dæmi. Og sum hver svo ný, að ljóst er að færsla hans um Símon er engin seinni skírn til betri trúar. Það er enda erfitt að kenna hálfdauðum hundi að standa.
Bara á forsíðu bloggs hans eru eftirfarandi fullyrðingar:
Í skilanefndum er spillt og þjófótt fólk, fólk er of trúgjarnt og ógagnrýnið á skoðanir á netinu (Símonarfærslan), í skilanefndum er óhæft fólk, Thomsen-„landstjóri“ telur sig geta skipað stjórnmálamönnum fyrir um ókomna tið, sá sem styður þingmann í prófkjöri á þann þingmann eftirleiðis, internetið er hjálpfúst miðaldarþorp, Símon Birgisson hætti vegna launa og frétt hans var stöðvuð því hún var stuldur á frétt annars miðils, kapítalisminn er villutrú fyrst Alan Greenspan viðurkennir það – við erum í skít út af ofsavillutrúarfólki, blaðamenn sem segja upp starfi vegna ritstjóra ráða ekki við vinnuna sína, munurinn á því þegar Grikkir henda bensínsprengjum í lögreglumenn og lögreglumenn skjóta tárgasi annarvegar og Íslendingar brjóta rúðu og löggan býður í nefið hinsvegar er tilkominn af því að Íslendingar eru tilfinningalega bældir en Grikkir ekki...
Og svo mætti halda lengi áfram.
Það er bara eitt sem er verra en dómharður bloggari. Og það er dómharður, heimskur bloggari.
Og þá að Símoni Birgissyni.
Símon segir, og Jónas talar þannig um það í fyrstu, að fréttin væri sú að Fréttablaðið lúrði á upplýsingum um eiganda sinn – án þess að birta þær. Það var fréttin. Jónas og Bergsteinn gefa í skyn að Símon hafi verið stoppaður af því hann hafi stolið fréttinni innanhúss.
Það er þvæla. Varla ætlaði Fréttablaðið að birta frétt um að það lúrði á þessum upplýsingum. Það ætlaði að birta ákæru og viðtöl. Það var allt önnur frétt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli