Er ekki kominn tími til að ...
Vandi Íslands er siðferðislegur. Það var djúpstæð siðblinda sem kom okkur á kaf í kúkinn. Það eimir enn eftir af þessari blindu. Sérstaklega hjá fólki sem trúir því að kreppan sé þjóðinni allri að kenna og það sé því bara þokkalega eðlilegt að þjóðin þurfi öll að kyngja eitrinu.
Þessir menn telja að það sé það sama, að kreppan sé einhverjum að kenna og að einhver fái að kenna á kreppunni. Það var ekki þjóðin sem lokaði landamærum Íslands fyrir tuttugustu og fyrstu öldinni. Það var siðblindur hópur vankunnandi óþokka.
Hryðjuverkamaður gæti falið sprengju í ísbíl. Hann gæti svo beðið meðan mannfjöldi hópaðist að bílnum og svo – búmm! Beinflísar í bragðaref. Þeir siðblindu myndu segja:„Fórnarlömbin áttu nú sinn þátt. Þau þurftu ekki að vera svona sólgin í ís.“
Það er lögmál í forritun að ef verkefni er komið fram yfir síðasta skiladag þá seinki því enn meira ef fleiri forriturum er bætt við. Stjórnvöld telja sér stætt að starfa samkvæmt þessu lögmáli. Of margir kokkar spilla soðinu. Stjórnvöld telja það siðferðilega ábyrgð sína að hvika hvergi. Klára það sem byrjað er á.
Það er rangt. Stjórnvöldum ber hiklaust að fara frá. Siðferðileg skylda þeirra felst í því. Hinsvegar ber stjórnvöldum að valda ekki meiri skaða en þau hafa þegar valdið.
Og þá kemur í ljós að siðblindan og stallsystir hennar, heimskan, er ekki eingöngu bundin við áhrifaöflin.
Engin frumleg hugsun hefur komið fram í kreppunni sem nálgast getur það að vera lausn. Þorvaldur Gylfason sá loks tækifæri til að öðlast þá hylli sem honum rann úr greipum þegar Davíð Oddsson sigraði hann í Inspectorskjöri í MR.
Kýrnar telja augljóst að vandinn stafi af því að ekki sé nóg baulað. Ærnar telja að nú þurfi að jarma sig út úr vandanum og Tófan telur að gott gagg geti a.m.k. ekki komið að sök. Róttæklingurinn reynir að róttækla íhaldssegginn. Íhaldsseggurinn tekur fram gasið. Evrópusinninn litar gular stjörnur á vegabréfið sitt og rasistinn vonar að nógu margir missi vinnuna til að það komist í tísku að berja útlendinga.
Nú vantar frumleikann. Allar óskir sem urðu að lausnum við það eitt að við lentum í vanda eru ótækar.
Sópum siðblinda liðinu frá borði. Sendum þá sem sköðuðu okkur í fangelsi eða setjum þá í þegnskylduvinnu.
Gerum þá kröfu til okkar sjálfra að hugsa nú einu sinni ögn dýpra en við erum vön. Þöggum niður í ræðumönnum sem segja ekkert nýtt. Látum þá ekki gegnisfella tungumálið frekar.
Gerum byltingu. Hugarfarsbyltingu. Menntum okkur aftur. Látum okkur nægja að syngja halelúja yfir blájólin en köstum eftir það sálmabókinni á bálið. Sem og öllu sem ekki er frumlegt. Ef það er frumlegt skoðum við hvort vit er í því. Ef ekki, á bálið með það. Það sem situr eftir, það gerum við.
2 ummæli:
Vofa gengur nú ljósum logum um Ísland —
Hugarfarsbylting fyrst, síðan rísa skuldaþrælarnir upp, þá brotna hlekkir kúgaðra og eftir það...
Hér er frumleg hugmynd: Að hætta friðsælum mótmælum og byrja að skjóta fólk.
Skrifa ummæli