14. desember 2008

Ég líkbrenndi Sam McGee

Eitt þekktasta kvæði Ameríku er sagan af líkbrennslu kuldaskræfunnar Sáms McGees eftir Róbert W. Service. Það var ekki fyrr en í dag að ég uppgötvaði að íslensk þýðing kvæðisins er til. Það var Bjarni Þorsteinsson frá Höfn í Borgarfirði sem þýddi. Bjarni flutti til Winnipeg og hefur líklega kynnst kvæðinu þar. Hér er þýðing hans:

Eg líkbrendi Sam McGee
Robert W. Service

Margt kynlegt er gert, sem ei getið er bert,
meðal gullnema und miðnætur-sól.
Geymir norðursvegs-slóð ríkan sagnanna sjóð,
sollinn hryllingu, í þögn sem hún fól.
Og norðurljós fá margar feyknir að sjá;
en ferlegast öllu af því
var samt þessi sjón, er við Lebarge-lón
eg líkbrendi Sam McGee.

Nú, téður McGee var frá Tennessee;
þar tína menn baðmull í sveit.
En hversvegna hann burt úr hlýviðri rann
út í heimsskautslönd, Guð einn veit.
Hann síkaldur var, eins og seiðbundinn þar
við svörðinn þar gullið er.
"Mundi eg velja mér stað," oft hann veinandi kvað
"í víti langt fremur en hér."

Það á jóladag var; okkur áfram vel bar
með akhunda á Dawson-slóð.
En hvað frostið vart hart, eins og hremsum það snart
okkar hold gegnum loðklæðin góð.
Gegn um samfrosnar brár gerðist sjónin ei klár,
svo við sáum þá stundum lítt fram.
Okkar kjör voru ei sæl, en ei kvein eða væl
heyrðist koma frá öðrum en Sam.

Svo þá komið var kvöld og við kúrðum í feld;
höfðum kastað til hundanna skamt.
Uppi stjörnurnar hátt stigu dansandi dátt;
en við dottuðum, röbbuðum samt.
"Heyrðu, kafteinn," hann tér "að mér feigðin nú fer;
hún mig fellir á þessari braut.
Veit eg drenglund þín væn ekki bregst þeirri bæn
er eg bið þig í síðustu þraut."

Það á svip hans eg sá, hann var sárhryggur þá;
mundi synjun þó auka hans mein.
"Fjandans kuldinn" hann kvað "sárast amar mér að;
eg er innkulsa, frosinn í bein.
Eg ei hræðist minn deyð; en mér hrollir sú neyð
að eg hýrist í freðinni mold.
Því eg beiðist af þér, nær minn bana að ber,
að þú brennir til ösku mitt hold.

Veit eg, síðsta bæn manns það er hugðarmál hans;
svo eg hét því að bregðast ei þar.
Við, er dagaði í ský, hófum dagleið á ný;
en, minn Drottinn, hve fölur hann var.
Hann á sleðanum lá, benti óráðshjalp á
að hans önd væri í Tennessee.
Seig að aftaninn grár; aðeins andvana nár
var þá eftir af Sam McGee.

Það andaði ei gráð um hið lífvana láð,
þar sem, lostinn af hrolli, eg fór
flutti andvana mann, til þess eiðskyldu fann,
þó mér armæða væri það stór.
Hann á sleðanum þar freðinn, fjötraður, var;
en mér fanst hann með gletnisvip tjá:
"Veit eg ljúft er ei þér, hvað þú lofaðir mér;
en því loforði sleppurðu ei frá."

Þegar loforð er veitt, er sem gjald það ógreitt;
og grimm eru lögin á braut.
Þó mér fyndist það leitt, því eg fékk eigi breytt;
en fjandi var örðug sú þraut.
Út í auðnanna nátt gólu hundarnir hátt.
Var ei hugfró þeim kveinstöfum að.
Og ækið mitt þar fyrir augum mér var.
Hvílík andstygð! Eg hataði það.

Og hvern daginn sem rann fanst mér drápþyngri hann
sem þar dauður á sleðanum lá.
Og hundanna þrótt fann eg hverfandi ótt;
einnig hraðan gekk matföngin á.
Hin illfæra braut var mér ögrandi þraut,
þó eg einbeittur fast sækti á.
Eg hóf oft upp ljóð fyrir hvimleiðan skrjóð;
og hann hlustaði glottandi þá.

Eg að lokum mig þó fram til Lebarge-vatns dróg;
og þá leit eg þar eimknúið fley.
Það var niðurlags-far, framar nothæft ei var;
og nafn þess eg las: "Alice May".
Þar eg starði á skeið og eg stansaði á leið
og eg starði á ækið um sinn.
Fram að lendingu eg hljóp, rak upp langdregið óp:
"Hér er lík-brensl-u ofn-inn minn."

Til eg þreklega þreif og úr þilfari reif
þykka planka og kurlaði smátt;
inn í ofninn það bar, sló svo eldi í þar,
innan stundar hann blossaði hátt.
Tíndi trjávið og kol í hinn biksvarta bol;
unz það bál myndi nema við ský.
Síðan holu eg gróf niður í kolanna kóf
og eg keyrði þar inn Sam McGee.

En það hvissaði og sauð; svo mér hvæs það ofbauð
að eg hörfaði burt þaðan skjótt.
Leizt mér hvelfingin há sýna heiftarsvip þá;
jafnvel hundunum var ekki rótt.
Nepjan helkalda hló; en á hlýrum mér þó
svitinn heitur sem steypiflóð rann.
Reykur biksvartur rauk, út á regindjúp fauk;
ríkur svælu af efni sem brann.

Hversu lengi eg lá láði snæþöktu á
lítt eg gætti, því hugstola var.
Unz mig blástjörnu blik mintu, brosandi kvik,
gæta bálfarar skyldi eg þar.
Þó af óttanum nær væri umhugsun f jær,
eg mig áttaði og hugsaði brátt:
Eflaust steiktur hann er; samt það aðgæta ber,"
Síðan ofnhurð eg svifti upp á gátt.

Alt í eldflaumi svam þarna inni og Sam
sat þar ennþá; nú leið honum vel.
Nú hann brosti svo hlýtt og hann hjalaði þýtt:
"Luktu hurðinni, gerðu svo vel.
Eg nú fagna við það að eg fundið hef stað,
þann fyrsta sem dveljandi er í.
Hleyptu ei heljunni inn. Mér er hlýtt fyrsta sinn
síðan hvarf eg frá Tennessee."

Margt kynlegt er gert, sem ei getið er bert,
meðal gullnema und miðnætur-sól.
Geymir norðursvegs-slóð ríkan sagnanna sjóð,
sollinn hryllingu, í þögn sem hún fól.
Og norðurljós fá margar feyknir að sjá;
en ferlegust öllu af því,
var samt þessi sjón, er við Lebarge-lón
eg líkbrendi Sam McGee.

B. Thorsteinsson

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afsakaðu misnotkunina, en þar sem ég hef ekki sjálfur úr vefsvæði að ráða ... þá þú veist.

Hvernig væri nú að fara setja Jónas gamla undir hnífinn. Maðurinn er farinn að setja inn fleiri færslur en Stebbifr, Alka-Jenný og Halli gamli til samans.

Ég hvet þig til að taka gamla aðeins fyrir, kíkja á vefsvæðið því auðvelt er að finna þar efni sem þú - ef þú ert þá hin eina sanna Mengella - hefur gaman af.

Ef ekki þá helduru bara áfram að velta þér upp úr skrifum Ellýar á vísi.