16. desember 2008

Refsivöndurinn er úr silki

Það athyglisverðasta við DV-málið er að í ljós hefur komið hvers vegna fjölmiðlar hafa brugðist nær fullkomnlega í aðhaldi á stjórnmála- og fjármálafólki. Það er staðreynd að Reynir Traustason stoppaði nauðaómerkilega frétt um einn af fjármáladólgunum. Hann þorði ekki í „óvininn“ nema hann hefði rothögg. Fjölmiðlar sem þora ekki að slá nema þeir séu vissir um rothögg eru heiglar. Heiglar vega menn úr launsátri. Fjölmiðill þarf að þora í fleiri en eina lotu.

Þá eru viðbrögð DV-manna við uppljóstrun Jóns óverjandi. Reynir reyndi mannorðsmorð. Sonur hans skrifaði „Ritstjórar stóðu frammi fyrir því að láta undan hótun reynslulítils blaðamanns og brjóta gegn sanngjarnri blaðamennsku með birtingu óljósra ávirðinga út í loftið, eða ella taka högg frá blaðamanninum þegar hann myndi ráðast gegn trúverðugleika blaðsins. Ákveðið var að taka höggið.“ Alþýðuhetjunni Illuga Jökulssyni rennur blóðið til skyldunnar og rifjar upp með sjálfum sér að hann kann líka að hræra í drullunni með penna sínum.

Viðbrögð sorppésafólksins, Reynis, Jóns og Illuga, eru öll á sömu bókina lærð. Þeir bregðast við með aðferðum sem þeir eru vanir. Þeir nota varnir fólksins sem þeir hafa sjálfir ráðist á í gegnum tíðina.

Nema þeir eru kannski heldur subbulegri.

Við bíðum eftir að Jónas opni sig.

Engin ummæli: