20. desember 2008

Tekinn

Luc Besson skrifaði handritið að Taken. Liam Neeson leikur aðalhlutverkið.

Myndin er stórgóð.

Liam er uppgjafarútsendari bandarískra stjórnvalda. Reynslan hefur gert úr honum mann sem sér hryðjuverkamann undir hverju handklæði og raðmorðingja í hverju rúmi. Heimurinn er barmafullur af barbarisma, ógnum og hættum. Allir eru spilltir. Allir – nema litla prinsessan.

Dóttir hans er ríðilegasta jómfrú hvíta tjaldsins síðan Mjallhvít var og hét. Hún á vinkonu sem er undirförul glyðra. Vinkonunni á eftir að hefnast fyrir það.

Dótturinni er boðið með glyðrunni til Parísar. Mamman, sem þolir ekki Liam, vill óð og uppvæg að hún fari. Þótt ekki sé nema til að hún verði brot af þeirri dræsu sem hún sjálf er. Mamman er hégómlega nornin með spegilinn. Liam er skógarhöggsmaðurinn með stærri samvisku en hníf. En samt með rosa stóran hníf.

Dóttin (sem eitthvað er farin að tapa Guði, þökk sé mömmunni) er í raun að fara að elta rokkband um Evrópu. Rokkbandið, sem við nefnum ekki á nafn, er samlandi Liams. Það spilar fína tónlist til að drepa sig við. En er glatað að öllu öðru leyti.

Stelpan kemst aldrei á tónleika. Henni er rænt af Albönskum ribböldum svotil um leið og hún stígur fæti á franska grund. Það vill svo heppilega til að hún er í símanum þegar henni er rænt og hún getur gefið viðmælandanum nokkrar upplýsingar um glæpamennina. Viðmælandinn: ofsóknarbrjálaður skógarhöggsmaður handan Atlantsála.

Kutinn er brýndur.

Spæjaramaskínan rúllar. Liam hefur tæpa hundrað tíma til að forða dóttur sinni frá örlögum sem eru verri en að elta rokkbandið um Evrópu.

„Naut í flagi“ lýsir frammistöðu hans í myndinni. Vei þeim sem verða á vegi hans. Reiður flugumaður með fírtommu nagla og startkapla er slæmur kokteill. Sérstaklega þegar maður er albanskur mafíósi.

Það skemmtilegasta við myndina er hvað Liam er gamall og gírugur. Hann myndi sparka Bond út í hafsauga. Hann myndi skjóta saklausa heimilisfrú í þann mund sem hún segir gjössovel við hann. Hann myndi skjóta heilt rokkband ef það myndi stoppa för dóttur hans.

Því miður kemur ekki til þess.

Og fyrir það getum við álasað helvítis Albönunum.

Öruggir þrír og hálfur kettlingur af fimm.

Engin ummæli: