Að kvitta fyrir sig
Íslendingar hafa í gegnum tíðina sætt sig við ótrúlega einangrun. Til er fólk á lífi, sem ekki sá banana fyrr en um þrítugt. Einveran gat verið sturlandi. Þá sjaldan að komu gestir var nærvera þeirra nýtt til fullnustu. Að vera gestur á íslensku heimili fyrri tíma var afar krefjandi hlutverk. Íslendingum var oft við brugðið fyrir gestrisni og örlæti gagnvart ókunnugum. Raunin var auðvitað sú, að móttakan var hunangið í gildruna - tilraun til að lokka ferskar sálir inn í staðnaða veröld.
Til að alminlega væri hægt að nærast á þessum heimsóknum, voru gestir neyddir til að þakka fyrir sig svart á hvítu. Þegar líða tók að lokum heimsóknar birtist húsfreyja eða -bóndi, með fagurlega skreytta gestabók og otaði kurteislega en ákveðið að komumanni. Í þá bók, átti gesturinn að auðsýna þakklæti sitt með einlægri eða hnyttinni færslu. Hann mátti gjarnan yrkja. Ábúendur gátu svo yljað sér löng vetrarkvöldin við að lesa færslurnar í gestabókinni. Það dró úr einsemdinni.
Fyrir nokkrum áratugum var gestabók álitin nauðsynlegri hverju heimili en klósett með rennandi vatni. Þær voru hinar fullkomnu innflutningsgjafir, gjarnan í útskornum tréspjöldum eða jafnvel bundnar inn í gæru. Smám saman hafa þær þó glatað gildi sínu, því þær eiga raunverulega aðeins við hjá fólki, sem sjaldan fær gesti. Hægt og rólega glötuðu gestakomur yfirspenntu gildi sínu og gamla gestabókin hvarf í geymsluna ásamt útskorna prjónastokkinum, fótanuddtækinu og rokki ömmu.
Undanhald gestabókarinnar er þó mun rólegra á sumum sviðum. Þannig er varla til sú kirkja eða safn á landinu, sem ekki varðar inngöngu með gestabók. Listamenn, sem dvelja mikið einir við sköpun sína, fá fróun í því að láta alla sem berja verk þeirra augum kvitta nafn sitt til sanninda um að vinnan hafi ekki verið til einskis. Fólk í fjallaskálum og sumarbústöðum hefur einnig gaman af því að skilja eftir sönnunargögn um ferðir sínar og gistiheimilaeigendur reyna óspart að láta hrósa sér í gestabækur.
Ég minnist þess ekki, á ferðum mínum erlendis, að hafa oft skrifað nafnið mitt við inngöngu á söfn eða á einkaheimilum. Að vísu geta verið hagnýtar ástæður að baki því. Það hefur jú tíðkast víða að senda þakkarbréf eftir dvöl í véum annarra. En það er deyjandi siður líka.
Netið sker sig dálítið úr að þessu leyti. Á netinu erum við öll hálfgerðir afdalabændur. Endurkoma gestabókarinnar lá því í loftinu. Hún tekur nú á sig nokkrar myndir. Í fyrsta lagi má nefna hefðbundnar gestabækur, þar sem menn gefa deili á sér og hrósa eigandanum fyrir eitthvað tilfallandi. Þá er það athugasemdakerfið, sem ég ætla að hafa nokkur orð um á eftir. Þá tölvupóstur og loks sérhæfð samskiptaforrit.
Athugasemdakerfin eru hlægilegust af þessu öllu. Níutíu og níu prósent af athugasemdum kerfanna eru óþarfa blaður. Oft hjákátlegar tilraunir til að skuldbinda eiganda síðunnar til að koma í heimsókn og kvitta þar fyrir sig. Stundum tilraun til að lofa eða lasta. Sjaldan nokkuð sem skiptir máli.
Ég hef athugasemdakerfi þessarar síðu opið af einni ástæðu. Mér þætti annað ómaklegt. Ég á það til að snúa lensu minni að öðru fólki og mér þykir eðlilegast að hægt sé að veita andsvör, mótmæla því sem ég er að segja. Þá þykir mér einnig réttlæta opið kommentakerfi að stundum skrifar einhver þar skemmtilega pælingu eða bendir á nýjan vinkil á málum. Sjálf skrifa ég svotil aldrei í athugasemdakerfi annarra. Það hefur gerst örsjaldan. Miklu oftar skrifa einhverjir að þykjast vera ég. Þeir bloggarar, sem ég les, hafa fæstir hugmynd um það, að ég er í lesendahópi þeirra. Ég sé enga ástæðu til að breyta því.
Þá eru það blessaðar frægðarhórurnar. Fullt af fólki, og sérstaklega moggabloggarar, hefur gerst áberandi á netinu fyrir ekkert annað en gera sig breiða í athugasemdakerfum annarra. Mogginn tók þá óviturlegu ákvörðun að leyfa þessu fólki líka að lifa sníkjulífi á fréttum (nokkuð, sem vafalaust sér fyrir endann á). ÁBS var á tíma illa haldinn af þessu fólki. Hann mátti ekki skrifa um neitt, án þess að einhverjir aumingjar birtust og pönkuðust á honum. EÖN er/var haldinn sama kvilla. Á tímabili smitaðist ég af þeim.
Manngerðin, sem smitaðist á milli athugasemdakerfanna, er ákaflega lítilsigld. Um er að ræða lítið þroskaða karlmenn, hverra líf hefur verið nokkurnveginn samfelld röð vonbrigða. Þeir lesa mikið og þeirra einu vinir eru bækur. Flestir halda þeir, að þeir séu stórskáld í leynum. Margir hafa dundað við að skrifa, en ekkert hefur orðið úr neinu. Annaðhvort hefur þeim verið neitað eða þeir ekki þorað að láta til skarar skríða.
Sem reglulegir bókaormar hafa viðbrögð þeirra við mótlætinu verið þau að naga sig inn að kjarna vinsælla bóka. Með því að liggja með trýnið ofan í bókum annarra telja þeir að dýrðin smitist yfir á þá. Þeir hafa óþroskaðan smekk og því eru bækurnar, sem þeir tigna, tiltölulega bitlausar en næstum alltaf sígildar í einhverjum kreðsum. EÖN og ÁBS líta þeir á sem starfsbræður í heimi bókmenntanna. Öfund knýr þá til árása.
Þessir gaurar eru ýmist einstæðir eða helgarpabbar. Hafi þeim tekist að barna stelpu var það undantekningalaust ósjáleg hrygðarmynd, sem í augnabliksörvæntingu valdi þann versta þegar útséð var með þann besta. Það, að O-flokks stelpan hafi síðan sparkað aulanum, er uppspretta mikils sálræns vanda.
Það er aldrei kjöt á þeim beinum, sem þeir kasta fram. Alltaf er um að ræða frímínútnaögranir. Og alltaf endurspegla upphrópanir þeirra brothætt sinni þeirra sjálfra. Hver einasta gusa er til marks um einhvern djúpstæðan ótta þess huga sem gýs.
Mér var í lófa lagið að loka á IP-tölur þessara ræfla. Eins er sáralítill vandi að ritskoða athugasemdir. En ég kaus að gera það ekki.
Ástæðan var fyrst og fremst sú, að þrátt fyrir harðneskjulegt yfirbragð á stundum, þá er ég aumingjagóð og með áhuga á mannlegu eðli. Aumingjarnir eru nefnilega ótrúlega áhugaverðir ef grannt er skoðað.
Sjáið vin vorn Aldous, sem einhverjir af lesendum eru farnir að fá leið á. Skoðið hvað heldur honum gangandi. Skoðið hverskonar athugasemdir hann skrifar. Endalausar upphrópanir sem bera vott um óttann við yfirgefningu, einveruna. Hann tekur eigin þjáningar og reynir að smyrja á aðra, leyfa öðrum að glíma við djöflana hans. Nikkið er lán á nafni unglingabókarhöfundar enda telur ræfillinn sér trú um, að hann sé einhverskonar baráttumaður í spilltum heimi. Veröld ný og góð og allt það. Stofnaði m.a.s. sitt eigið blogg undir þeim titli. Blogg, sem enginn les og öllum er sama um. Og hvað skrifaði hann á bloggið sitt? Ekkert sjálfur. Hann dró þangað einungis færslur frá öðrum. Bloggið hans er ekkert annað en tilraun til að vera athugasemdapönkari á heimavelli.
Aldous, þú ert velkominn. Austu úr skálum þínum sem oftast. Í hvert sinn, sem þú birtist, þykir mér vænna um hve náttúran var örlát á vöggugjafir mínar.