10. júlí 2007

Skilvindustrætó

Skilvindur eru mögnuð fyrirbæri. Ég held jafnvel að fáar uppfinningar beri hugviti manna fegurra vitni. Skilvindur eru svo sáraeinfaldar en um leið fjarstæðukenndar að maður á erfitt með að forðast andakt með mynd þeirra í huganum. Mér skilst að nú sé hafin framleiðsla á ryksuguskilvindum. Ryksugur sem soga loft og ryk og smádrasl upp í keilulaga tromlu og aðskotahlutirnir þeytist í henni hring eftir hring en hreint loft þeytist í burtu. Svo er slökkt og ryk og drulla sitja föst í tromlunni. Þannig á að þrífa. Að sjúga loft, ryk og annað drasl í gegnum grisju er fáránleg orkusóun og því subbuleg uppfinning. Svona álíka hagkvæmt og að kæla mjólkurpott með því að snöggfrysta heilt eldhús eða flytja 56 kg gamla konu frá A til B í 1400 kg stálferlíki. En máttur vanans er mikill.

Ég hef upp á síðkastið reynt að velja orkuvænni lífsmáta. Ég hef að vísu ekki enn fundið ryksuguskilvindu en ég hef gert dálítið af því að taka strætó og skilið bryndrekann eftir heima. Og það var í strætó áðan að ég uppgötvaði að ég sat um borð í skilvindu.

Ég hef veitt því athygli að hin almennt glaðsinna ég fór undantekningarlaust að dofna eftir u.þ.b. stundarfjórðungssetu í strætó. Dagarnir fóru hægt og rólega að glata sínum lit. Bílstjórarnir í litlu dollunum umhverfis mig, sem sátu og boruðu í nefið eða kreistu bólu hættu að vera áhugaverðir. Heimurinn varð einhvernveginn grárri.

Þetta þunglyndi, sem lagðist hægt og rólega yfir mig í strætó, var mér nokkur ráðgáta. Ég er manneskja, sem get gleymt mér í klukkutíma við að stara á maura bera brauðmola eða í hugleiðingar um það hvað valdi þjöppun kolsýrings í drykkjum. Hvernig gat staðið á því að ég var hægt og rólega að ummyndast í holmenni?

Lausnin var sú að strætó er botninn á samfélagsskilvindunni. Steinfólkið tekur strætó. Fólk sem á fátt sameiginlegt annað en lítinn vitsmunaþroska, þjakandi lífsskilyrði og óspennandi framtíðarsýn. Yfir þessu öllu drottnar bílstjórinn, sem af einhverjum ástæðum hefur valið sér andstyggilegasta starf á öllu Íslandi. Ófleygar sálir með hnullung í maganum.

Strætóferðir eru mannskemmandi. Ég veit ekki hvort ástæðan er sú að eitthvað við ferðamátann skemmi fólk eða það að skemmt fólk taki strætó og svo rotni útfrá þeim. Mig grunar að það sé einhver blanda. Að fá far með strætó er eins og að húkka líkbíl. Augu farþeganna eru dauð. Þar er enginn útitekinn eða rjóður í kinnum. Brúna fólkið í strætó fæddist brúnt. Enginn brosir. Flestir bera heiminn á herðum sér. Hugur þeirra hverfist um það hvort strætó muni ekki örugglega stoppa á réttum stað eða með hvaða tón maður skyldi biðja um skiptimiða í dag.

Af og til koma börn og unglingar í strætóinn. Þá er eins og hlýr vorblær streymi inn um rifu á feysknum vegg. Blærinn leikur um vanga þeirra sem sitja fremst í vagninum, en oftar en ekki er komið logn um miðbikið. Börnin setjast þegjandaleg í sætin og lífið er sett á hóld. Þau lifna ekki við fyrren þau sleppa úr vagninum aftur.

Ef fólk aðeins þyrði að spjalla saman í strætó myndi losna um klakaböndin. Maðurinn er félagsvera, honum er ekki ætlað að sitja í þögulli hunsun á umhverfinu. En fólk talar aldrei saman. Þeir sem byrja að blaðra er eina hýra fólkið sem tekur strætó, ær gamalmenni og geðsjúklingar. Þar sem opið viðmót er til marks um geðveiki loka allir aðrir skelinni sinni, setja heyrnartól í eyrun og reyna að hverfa.

Það er óhollt fyrir hrifnæmar sálir að taka strætó. Maður kemur út smitaður af vanda annarra. Með þyngd fjögurra bónuspoka einstæðu móðurinnar á örmunum, svip gamla mannsins, sem heimsótti heilabilaða konu sína og á sér þann óeigingjarna draum að hún lifi skemur en hann, á andlitinu og kræklað vaxtarlag öryrkjans. Ég held ég hætti að taka strætó.

Nema stjórnendum strætó auðnist sú gæfa að fegra líf farþeganna með listum. Skáld lesi upp úr bókum sínum, lítill leikþáttur sé settur á svið á ganginum eða lifandi tónlist. Þá myndi ég kaupa mér græna kortið.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Helber sannleikurinn er kaldur og hlutlaus...hittir mig í hjartastað...enda á ég tvo bíla og þori ekki að taka strætó. Tóti

Nafnlaus sagði...

Íslendingar eru of innhverfir til að tala við ókunnuga.

Þar sem ég þarf að taka strætó (sé ekki nógu vel til að keyra) ferðast ég alltaf vopnuð ipod sem styttir mér stundir. Ég tel mig þó ekki vera með "lítinn vitsmunaþroska, þjakandi lífsskilyrði og óspennandi framtíðarsýn"

Nafnlaus sagði...

Tilhugsunin um að hlusta á skáld lesandi upp úr verkum sínum eða uppsetningar á litlum leikþáttum í strætó er gjörsamlega hryllileg, það er svona soldið eins og að þurfa að láta saga af sér fótinn og í staðinn fyrir að fá deyfingu þá sé sett upp brúðuleiksýning fyrir mig..

Valtýr/Elvis2

Nafnlaus sagði...

Valtýr Björn?

Nafnlaus sagði...

Hjördís, afhverju færðu þér ekki bara gleraugu ?

Nafnlaus sagði...

Ég hætti að nota strætó um svipað leyti og ég tók bílpróf. Reyndar eru engin tengsl þarna á milli, enda hef ég varla ekið bíl síðan; bílprófið rann út og var aldrei endurnýjað, en síðan er meira en aldarfjórðungur.