9. júlí 2007

Þú ert sjöa!

Var að keyra um daginn og varð fyrir því einstaka láni að lenda inni í þætti Hermundar Rósinkrans (minnir mig hann heiti). Hermundur er einn af þessum rugludöllum sem lifir á því að ljúga að enn meiri rugludöllum. Þú getur sagt honum hvenær þú ert fædd og hann romsar upp veðurhorfum næstu ára í lífi þínu.

Einn karlgarmur hringdi inn og reyndist vera sjöa. Og sem sjöa mætti hann búast við að verða eldri en píramídarnir, því sjöur eru næstum ódrepandi. Karlinum þótti auðvitað nokkuð til þess koma, sérstaklega í ljósi þess að hann var einn á lífi úr stórum barnahópi. Þegar Hermundur henti þetta á lofti bætti hann við, að vissulega þyrftu sjöur að passa sig, því það væri svoleiðis allt vaðandi í kransæðastíflum og öðrum hjartameinum hjá þeim.

Miðlar og aðrir kuklarar eiga sér aðeins tvennar málsbætur. Sú fyrri er geðveila, sem heiðarlegir miðlar eru haldnir, eðli málsins samkvæmt. Sú síðari er þær nytjar, sem eru af miðlum. Þeir láta sumu fólki líða vel.

Nú er það svo að fyrirtæki geta átt yfir höfði sér himinháar sektir gerist þau sek um oggulítil skrök í auglýsingum. Sá sem lýgur fyrir dómi getur verið rimlaður inni. En miðlar fá að ljúga þindarlaust og það gegn himinháum launum. Og að fólki sem á yfirleitt um verulega sárt að binda.

Það er eitthvað ógeðfellt við þetta.

Það er lausn á þessu. Lausnin er þessi. Samkeppniseftirlitið eða Neytendastofa kaupir spilabunka. Hver sá, sem verður uppvís að því að selja miðilshæfileika sína verður að sanna gæði þeirra með því að vita hver þrjú efstu spilin eru í stokknum eftir væna stokkun. Þeir sem klikka, fá háar sektir og fangelsisdóma.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður vinur minn sem var frekar illa haldinn af geðröskunum fór til miðils og hún staðfesti fyrir honum flestallar ranghugmyndir hans eins og það að hann gæti ekki haft neitt að segja um drykkjuvandamál sitt vegna þess að það væri verið að refsa honum fyrir að hafa staðið sig illa í fyrri lífum og að kona sem hann ofsækti væri kosmískur tvíburi hans og að þeim væri ætlað að vera saman.
Þessi vinur minn svipti sig að lokum lífi frekar en að fara í áfengismeðferð.

Valtýr/Elvis2

Þórdís Gísladóttir sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Nafnlaus sagði...

Afhverju þrjú efstu spilin ?? Afhverju ekki bara tvö? Eða fjögur ? Og afhverju efstu spilin ??.... hmm...það er eitthvað gruggugt á seyði hér...

Nafnlaus sagði...

Afhverju ekki efstu þrjú spilin? Vel stokkaður spilastokkur lútir lögmálum líkindafræðinnar og því skiptir engu hvort það séu tekin efstu þrjú spilin eða einhver önnur þrjú spil hvaðan sem er í bunkanum. Það er sjálfsagt bara einfaldara í framkvæmd að nota efstu þrjú í stað þess að finna fjórða spilið, það nítjánda og það þrítugastaogsjöunda, svo dæmi sé tekið. Í báðum tilfellum eru líkurnar á að rétt sé giskað 1/132600

Nafnlaus sagði...

"Þessi vinur minn svipti sig að lokum lífi frekar en að fara í áfengismeðferð."

Úff! Hversu skaðlegt getur þetta miðlapakk eiginlega orðið?

Nafnlaus sagði...

En annars, þá er þessi grein eins og eitthvað sem gæti hafa birst á Vantrú. Ertu viss um það, Mengella, að þú eigir ekki við einhverja þroskaskerðingu að stríða að vera skrifa svona um miðla og talnaspekiinga? Það getur nebblega enginn vitað um grundvöll eftirlífsins og talnaspekinnar frekar en húmors og stílsnilli. ;)

Nei, þú sérð skaðsemina og tjáir þig um hana á hispurslausan máta. Hið besta mál alveg hreint.