14. júlí 2007

Blogghali

Það er svo óskaplega leiðinlegt að lesa langa hala í kommentakerfinu að ég set hér gagnrýni þeirra Elíasar og Birgis og svör mín við því. Ég lengi svo kannski þessa færslu ef orrahríðin heldur áfram.

Elías segir:

Ég lít á þetta sem algert feilhögg.

Vantrú gengur fyrst og fremst út á að stöðva hamslausa trúvæðingu samfélagsins.

Hin sjálfsagða og óumdeilanlega staðreynd að trú er þvættingur er auðvitað oft nefnd í því sambandi, en er í rauninni ekki nauðsynleg.

Ég svara:

Það var aldrei tilgangur minn að lýsa því yfir að Vantrú væri á villigötum að öllu leyti. Að mörgu leyti er ég sammála Vantrúuðum.

Þú í raun orðar þetta vel. Það, sem Vantrú berst gegn er að mestu leyti óháð trú sem slíkri.

Það sem ég var að ráðast á er sú þroskahamlaða hugsun sem felst í orðunum "Hin sjálfsagða og óumdeilanlega staðreynd að trú er þvættingur".

Það má vel vera að trú sé þvættingur. En hún er staðreynd á nákvæmlega sama hátt og húmor. Húmor er nefnilega þvættingur ef reyna á að færa vísindaleg rök fyrir honum. Eina sem hægt er að segja um hann er, að hann er til. Það er trú líka.

Vanþroski vantrúarmanna (og þinn) sést á rökvillu (sem er skemmtilegt í ljósi aðdáunar Vantrúaðra á rökvillum). Rökvillan er þessi:

F1. X er trúaður og heldur Y fram.
F2. Y er vitleysa.
ergo: Þar sem X heldur fram vitleysu og er trúaður, þá er hlýtur trúin að vera vitleysa einnig.

Nákvæmlega eins og þú sagðir sjálfur.

Það er hægt að stúta því sem Vantrú ræðst gegn, án þess að vísa til trúar. En það er samt oft ranglega gert.


Elías svarar:

Ég játa á mig ónákvæmni í orðavali. Með "trú" meinti ég ekki hugarástand hins trúaða heldur hinar meintu staðreyndir sem hann heldur fram. Sem sagt Y í yrðingunni að ofan.


Ég svara:

Enda hef ég hvergi sagt að rökréttar árásir gegn dogma séu til merkis um vanþroska.

En lífsviðhorf flestra Vantrúaðra er miklu róttækara en það. Þeir hafna trú alfarið og ráðast ítrekað að henni með rökum, sem (eins og þú bentir á) koma trúnni ekki við frekar en að hægt sé að hafna tilvist húmors með því að benda á Spaugstofuna.

Vantrúaðir hafa nefnilega (eins og ég skrifaði) gert þá kvíarvillu í huga sér að þar sem barnatrúin var uppfull af vitleysum, þá beri að hafna trú í heild sinni. Líta gjarnan á sig sem hetjur, fólk sem þorir að lifa í heimi án trúar án þess að fyllast vonleysi.

Trúin á, að halda beri í vonina í guðlausum heimi er trú (hún er ekki skynsemissannindi). Þ.e. í þeim skilningi að þrátt fyrir að það skorti endanleg rök til að fallast á fullyrðinguna, þá sé rétt að gera það samt.


Birgir segir:

Væru trúarhugmyndir ekki í rótina skaðlegar samfélaginu værum við ekki að þessu. Það er þessi barátta við skaðsemina sem Mengella kemur ekki auga á í starfi okkar. Hún gerir okkur upp annan tilgang en við höfum og fremur þar með strámannsrökvilluna.

Það er ekkert að því að benda á rökvillur heldur er það þvert á móti nauðsynlegt til að koma mönnum í skilning um hvar þá ber af leið í því sameiginlega keppikefli rökræðenda að komast að haldbærri niðurstöðu.

Við erum eins og tóbaksvarnarráð eða Amnesty þegar kemur að því að benda á skaðsemi trúarhugmynda. Ég get ekki séð að það sé neitt þroskaheft við slíka hugsjónabaráttu. En auðvitað getur vel verið að við séum að berjast við vindmillur, að skaðsemin sé aðeins ranghugmynd í okkar eigin haus. En þá þarf bara að sýna okkur fram að á svo sé í stað þess að koma bara með einhverjar óljósar fullyrðingar um þroskaskerðingu.

En auðvitað er margt gott í grein Mengellu, enda gellan bæði skynsöm og gagnrýnin í hugsun. En myndi í hennar sporum ekki vera svona viss um að ekki sé hægt að fjalla um og skilgreina grundvöll húmors og stíltilfinningar. Á hvaða rökum byggir hún eiginlega þessa afstöðu?

Ég svara:

Birgir.

Ég kem vissulega auga á skaðsemina. Enda er ég málefnalega áreiðanlega sammála Vantrúuðum um flesta hluti.

Okkur greinir á um eina grundvallarforsendu. Þið rekið skaðsemina til trúar, ég rek hana til almennrar, mannlegrar heimsku.

Strámannsrökvillan er gripin úr lausu lofti, ég gerði ykkur aldrei upp tilgang, ég greindi einfaldlega hugmyndafræðilegan grundvöll margra sem koma að Vantrú. Það er ekki það sama.

Ég er að fjalla um það, sem kristallast kannski best í því sem Elías missti út úr sér og nú þú, þegar þú segir að trúarhugmyndir séu í rótina skaðlegar samfélaginu.

Trúarhugmyndir sjáðu, ekki iðkun trúarbragða.

Þetta er órökrétt niðurstaða, knúin fram af glámskyggni. Þið getið ekki greint á milli trúar og trúarbragða. Þið fordæmið og hafnið trúnni vegna þeirra hluta sem framkvæmdir eru í nafni hennar. Þrátt fyrir það, að vita jafnvel og ég, að a.m.k. 90% af því sem þið berjist gegn er illsamrýmanlegt við sjálfan grundvöll þeirra trúarbragða sem vísað er til.

Ég segi aðeins, að gáfað fólk geti vel hræsnislaust haft trú. Og það er þroskamerki að átta sig á því. Trú á tilgang með lífinu, trú á tvíhyggju varðandi sál og líkama, trú á merkingu með jarðlífinu, trú á eitthvað meira en blasir við. Og að þessi trú geti verið sprottin af nákvæmlega eins ástæðum og sannfæra mann um að tónlist sé mikilvæg, nú eða húmor.

Síðan getur þetta trúaða fólk fundið samsvörun í t.d. kristni eða Islam og hafið iðkun þeirra trúarbragða. Og allt án þess að falla í þá gryfju að halda að trúarritin eða prestarnir séu óskeikulir.

Tökum hliðstætt dæmi. Einhverjir meðlimir Vantrúar hafa væntanlega dálæti á tónlist. Þeir geta ekki rökstutt þetta dálæti öðruvísi en út frá þeim kenndum sem hlustunin veitir. Segjum nú, að á einhverju tímaskeiði rekist viðkomandi á hljómsveit, sem hann fellur fyrir. Segjum bara að hljómsveitin sé Queen.

Viðkomandi verður áhangandi Queen. Tekur upp hanskann fyrir hljómsveitina ef henni er hallmælt, leggur lykkju á leið sína til að læra öll smáatriði um hana sem á vegi hans verða, klæðist fatnaði með merki hljómsveitarinnar, fer jafnvel að boða dásemdir hennar fyrir öðrum og fyrirgefur henni auðsveipur þegar henni verður á.

Ef grannt er skoðað, er ótrúlega lítill munur á hefðbundum safnaðarmeðlim í kirkju og harðkjarna Queen aðdáanda. Allt sem þú finnur í fari þess trúaða er að finna í fari hins.

Sama gildir um fótboltaáhugamenn. Fótboltaáhugi stjórnast ekki af skynsemi og liðshollusta er goðumlík.

Ódæði er að finna í tengslum við allt þrennt, trú, fótbolta og tónlist. Að ég byrji ekki á stjórnmálum og slíkum ellum.

En ódæðin eru ekki VEGNA trúarinnar, tónlistarinnar eða fótboltans. Þau eru vegna sammannlegrar heimsku, sem skín í gegn í öllum verkum mannanna.

Rökfræði mun seint geta varpað ljósi á eigin undirstöður, það er erfitt (ef ekki útilokað) að færa rök fyrir því að eitthvað sé A eða ekki A á tilteknum tíma en ekki bæði. Það er bara svoleiðis.

Ég enda í bili á litlu dæmi. Segjum að þú sért fangi misyndismanna. Þeir lofa að sleppa þér ef þú selur saklaust fólk í hendur þeirra. Fólkið yrði vafalaust myrt. Ef þú neitar verður þú myrtur. Enginn mun nokkru sinni vita hvað þú valdir og eftir viku verða allir óþokkarnir dauðir (og þú verður að svara strax). Hvað gerir þú?

Ég hugsa að margir svokallaðir trúlausir myndu fórna sér í slíkri aðstöðu. Að minnsta kosti er ég viss um að Vantrúarmenn væru ósammála því að slík fórn væri aðeins á færi trúaðra.

En fyrir hvað fórnaðir þú þér?

Jú, vissu um einhvern tilgang. Að það, að breyta rétt væri mikilvægt fyrir þig persónulega. Jafnvel þegar afleiðingarnar eru að öllu leyti skelfilegar fyrir þig.

Hvað ljær þessari vissu mikilvægi sitt?

Jú, ekkert annað en trú þín á hana.

Við getum svo leikið okkur í freudiskum sálgreiningarleikjum og útskýrt útfrá einhverri kenningu hvers vegna þú myndir haga þér svona. Nú eða sálvefrænt. Eða bara eðlisfræðilega. En um leið myndum við taka hugtökin rétt og rangt út úr jöfnunni. Eða ætti ég að segja gott og illt.

Í lífi okkar skipta hugtökin rétt og rangt máli og í dæminu skipta þau öllu máli, þótt þau geri það ekki í eðlisfræði (nema í merkingunni satt og ósatt). Og trú er hluti af þessu lífi á sama hátt og tónlist.

Og þið ættuð að una öðru fólki þess að trúa, á sama hátt og þið leyfið hverju öðru að vera áhangendur Queen.

Það er heimska sem þið eigið að berjast gegn. Og hún getur birst hvort sem er, með kjánalegu dálæti á lögunum í Mósebókunum eða kjánalegu dálæti á lögunum á Hot Space. Hvort tveggja eru sorgleg börn síns tíma.

Birgir svarar:

Sæl Mengella!

Fyrst um strámannsrökin: Þú segir í greininni:

„Fólkið í kringum Vantrú er að stofninum til óþroskað og staðnað í sinni andlegu þrautagöngu. Það sést best á því hve merkileg þeim finnst þau sannindi að guð biflíunnar sé falskur héri. Þeir eru ekki búnir að uppgötva neitt merkilegt. Þeir eru eins og samtök sem nenna að rífast um tilvist trölla, jólasveina eða álfa.“

Þarna gerirðu því skóna að markmið okkar sé einfaldlega að rífast um tilvist einhvers. Auðvitað er það ekki stefnumið okkar, því þá væri Vantrú svo sannarlega bjánaleg hreyfing. Þetta gengur út á miklu meira en það að trúa ekki.

Svo segirðu um trúarhugmyndir versus iðkun trúarbragða:

"Þetta er órökrétt niðurstaða, knúin fram af glámskyggni. Þið getið ekki greint á milli trúar og trúarbragða."

Það er skaðsemin sem knýr okkur áfram, skaðsemi hugmyndanna sjálfra, ekki bara heimska þeirra sem haldnir eru þeim. Hvað segirðu t.d. um hina kristnu hugmynd um illa anda? Er það ekki hugmyndin sjálf sem fær fólk á ýmsum tímum til að pynta geðsjúklinga, flogaveika og jafnvel börn? Heimska þeirra sem pynta er ekkert óháð hugmyndinni, hún er bein afleiðing af því að hugmyndin er boðuð til að byrja með. Iðkun trúarbragða er hegðun sem stjórnast af þeim trúarhugmyndum sem eru boðaðar. Trúin sjálf er alls ekkert stikkfrí í þessu samhengi.

Þetta viðhorf þitt er ótrúlega algengt í samfélaginu, að fría trúna en kenna skipulögðu trúarstarfinu um. En ég hef fyrir löngu komist á þá skoðun að þessi afstaða sé ranghugmynd.

Trúin er samansafn skoðana, trúarskoðana. Skoðanirnar sem við höfum móta athafnir okkar. Skoðanir geta verið fagrar og uppbyggilegar en líka skaðlegar. Og aldrei eru þær einkamál manna, því þær lita alltaf hegðun okkar og talanda.

Þú segir að heimsku mannanna sé um að kenna og það er rétt ályktað. En hvað er þessi heimska annað en samansafn þeirra skoðana sem ráða hugarstarfinu? Trúarskoðanir eru einfaldlega heimskar skoðanir, enda byggja þær ekki á staðreyndum eða raunveruleika.

Það var trúarskoðun sem sendi menn í krossferðirnar, sú skoðun að til væri heilög borg sem saurguð væri af heiðingjunum sem hana byggðu. Þessi trúarskoðun er ein af þeim skaðlegri sem sést hefur í sögunni. Önnur skaðleg hljóðar upp á áhrif djöfulsins á hugi manna og kostaði ótal mannslíf í nornafárinu.

Við erum í rótina sammála, en ég held að þú áttir þig ekki á því hvað það er sem mótar heimskulegar gjörðir þeirra sem farið hafa fram með skaðlegar athafnir í nafni trúarinnar, nefnilega trúin sjálf.

Meira um allt þetta í þessum greinum: http://www.vantru.is/2005/04/26/00.48/ og http://www.vantru.is/2005/10/28/00.00/

Svo er hér ein um skaðann af hugmyndinni um tilvist illra anda í nútímanum: http://www.vantru.is/2005/08/26/00.00/


Ég svara:


Sæll, Birgir.

Hér gerist þú aftur sekur um strámannsrökin. Að segja að til séu samtök sem nenni að rífast um tilvist x er ekki það sama og að segja að þeirra eina markmið sé að rífast um tilvist x. Þetta ætti að vera þér, rökfróðum manninum, ljóst.

Dæmið um illa andann er gott. Og varpar ljósi á efnið betur en þú kannski hugðir. Var það ekki tilvist illa andans, sem fékk fólk til að framkvæma óhæfuverk? Svarið er eindregið og sjálfsagt nei. Til að svo væri þyrfti einber tilvist illa andans að leiða af sér þessar athafnir. Þ.e., að voðaverkin væru óumflýjanleg afleiðing af tilvist þess illa. Hið rétta er, að engu slíku er til að dreifa.

Þið sjálfir hengið alla ykkar starfsemi á trúna á gott og illt og hafið sjálfir skapað illan anda í hugmyndakerfi ykkar. Sá er ekki persónulegur en er illur andi engu að síður. Andi fáfræðis, hindurvitna og, ja, trúarbragða. Þið eruð sjálfir í krossferð, því þið trúið því að þið hafið réttan málstað en einhverjir aðrir vondan. Það sem felst í tilvist hins illa anda, í sinni einföldustu merkingu, er í sjálfu sér ekkert umfram það, sem þið sjálfir innleiðið í ykkar hugarheim og starf.

Þú greinir ekki rétt, hvernig heimska mannanna og skoðanir tengjast. Þú spyrð hvort hún sé nokkuð annað en samansafn skoðananna. Jú, hún er það. Heimskulegar skoðanir eru til marks um heimskuna en ekki öfugt.

Um það, hve trúin sé í sjálfu sér slæm, þá er það röng ályktun. Trúin hefur tilhneigingu til að verða málstaður þeirra sem hana aðhyllast. Á nákvæmlega sama hátt og fótboltafélag eða baráttan gegn hjátrú. Það eru síðan mannkostir þeirra sem aðhyllast málstaðinn sem ráða afleiðingunum auk félagslegra aðstæðna.

Það má segja Vantrú til hróss, að þið hafið látið nægja að rökræða um skaðsemi trúarinnar. Ykkar eigin málstaður hefði í höndum fóla vel getað afsökun fyrir því að spilla helgihaldi, fremja skemmdarverk á kirkjum og berja miðla.

Ef einhver í ykkar hópi myndi nú stinga upp á því að kominn væri tími til að frelsa Háskólann úr klóm þeirra kristnu, þar sem Háskólinn væri helgur staður skynsemisdýrkenda og væri saurgaður af síngjörnu hindurvitnahyski. Þá væri þar um að ræða fullkomna hliðstæðu Krossferðanna. Ef slíkar aðgerðir yrðu ofbeldisfullar, er ekki lífsskoðununinni um trúleysi að kenna, hún er einfaldlega notuð sem átylla fyrir ofbeldinu.

Þið getið vel bent á þúsund dæmi þess, að trú hafi verið þáttur í hörmungum og skelfingum. En hætt er við að þið séuð haldnir fyrirsagnaveiki, þ.e. að þið horfið framhjá hinum milljónunum sem aldrei komast í fréttir, því trú er ekki skaðlegra afl í lífi þeirra en t.a.m. áhuginn á íþróttum eða kynhvötin.

Til eru söfnuðir sem í raun réttri eru að berjast gegn kynhvötinni. Og það vantar ekki rökin. Hugsið ykkur allar þær hörmungar sem óheft kynhvöt hefur kallað yfir heiminn, heilu lífin ónýt á unga aldri. En slík barátta er heimskuleg því hún neitar mönnum um þann sjálfsagða rétt að vera mannlegir. Þið eruð að gera það sama. Þið teljið ykkur hafa komist að þeirri niðurstöðu að líf ykkar (eins og kaþólskra presta) geti verið blómlegt og fullnægjandi, án tiltekinnar mannlegrar kenndar. En í stað þess að vera sáttir við ykkar val og berjast, réttilega gegn heimsku, fáið þið mikilmennskuglampa í augun og viljið að allir verði eins og þið.

Loks um vísindin. Þegar Popper skilgreinir vísindi utan um afsannanlega hluti, varð stór hluti af jarðlífinu eftir fyrir utan. Það er líf fyrir utan vísindin. En það er annar þráður.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er svo mikið ofstækisfólk í Vantrú. Erfiðara að losna við röflið í því en votta Jehóva af dyrastéttinni.

Nafnlaus sagði...

Þetta vilduð þið. Rífast við Vantrúarliðið. Nú hlýtur að vera gaman að vera Mengella.

Nafnlaus sagði...

Komið á alvöru aðskilnaði ríkis og kirkju og vantrúarliðið mun hverfa.

Hér á landi viðgengst viðurstyggileg skoðanakúgun í skólum þessa lands. Börn eru þvinguð til að taka þátt í fíflalátum sem kallast trúarstarf, án þess að foreldrar fái rönd við reist.

Nafnlaus sagði...

Til að forðast langa athugasemdahala ætla ég að svara þessu í Vantrúargrein. Hún birtist á næstu dögum.

Kem hingað og linka í hana þegar hún er komin í loftið.

Aldous said...

Þetta vilduð þið. Rífast við Vantrúarliðið.


Hvað er að því að rökræða þessi mál? Af hverju fer það svona í taugarnar á mörgum, jafnvel svo mikið að verjandi er að kalla fólkið sem skrifar á Vantrú öllum illum nöfnum? Þið verðið að átta ykkur á því að með úthrópunum ykkar gerið þið ykkur sek um nákvæmlega það sem þið eruð að ásaka okkur fyrir. Af hverju megið þið en ekki við?

Fyrir nú utan það að við reynum að halda þessu á málefnalegum nótum, görgum ekki bara „hálfvitar“, „fávitar“ og „ofstækismenn“ út í loftið.

Lítið í eigin barm, gott fólk.

Þetta síðasta á að sjálfsögðu ekki við um Mengellu heldur þá sem kommentað hafa undir greinum hennar.

Nafnlaus sagði...

Komin grein: http://www.vantru.is/2007/07/17/08.00/

Nafnlaus sagði...

Ég verð bara að viðurkenna að ég veit ekki hvaða félag Vantrú er.

En ég verð að taka afstöðu með Mengellu í þessu máli. Það er jafn mikil firring sem felst í því að trúa einhverju ósönnuðu statt og stöðugt eins og að neita að trúa því. (Veit samt ekki hvort ég sé að taka afstöðu með Mengellu eða ekki.. haha..)

Ef að hlutur er ekki sannaður, er hann ekki ósannaður heldur.

Fyrir utan nú það að þó trú hafi í gegnum árin valdið hömungum og ógeði hefur trúin líka glatt svo marga og hjálpað svo mörgum. Ég er alveg viss um það að trúin hjálpar fleirum en hún skaðar.

En samt er ég sammála einhverjum þarna að ég er algjörlega á móti því að börnum sé kend kristinfræði í skóla.
Ég væri mikið sáttari við trúarbragðafræði.

Helgi Briem sagði...

Það er jafn mikil firring sem felst í því að trúa einhverju ósönnuðu statt og stöðugt eins og að neita að trúa því.

Þetta er brjálæðisleg vitleysa og augljóst hvers vegna.

Það er endalaust hægt að búa til uppskáldaða firru. Við getum ekki fyrirfram trúað allri þeirri firru sem hægt er að fantasera með, er það? Trúir þú á ísfólkið? Kærleiksbirnina? Seif? Mikka mús?

Nei, sú grunnafstaða að trúa ekki nema því sem einhver fótur er fyrir er augljóslega mun rökréttari og leggur ekki jafn þungar byrðar á huga okkar.

Sá sem tekur þá afstöðu fyrirfram að trúa hvaða bulli sem er leggur þungar byrðar á hugsun sína. Hann þarf stöðugt að sætta ósættanlegar og ósamrýmanlegar hugmyndir. Þá er leiðin stutt yfir í geðveiki og andlega ördeyðu. Huganum er illa við mótsagnir.

Ef ný (eða gömul) hugmynd er ekki í samræmi við mína heimsmynd (álfar t.d.) þá hafna ég henni þangað til einhver sýnir með gildum rökum, mælingum eða tilraunum að hún standist.

Einar sagði...

Sæl Mengella, og takk fyrir áhugaverðan pistil. Í grunninn er ég alveg sammála þér. Ég man eftir rökum prófessors Dawkins þess efnis að það væri rökleysa að það væri í lagi að trúa á eitthvað, vegna þess að það væri ósannað að það væri vitleysa. Hann benti á að það væri heldur engin leið til að afsanna að tepottur væri einhvers staðar á sveimi í Sólkerfinu. En málið eins og mér finnst að það sé er það að ef trúin er á fyrirbæri sem sé ósannanlegt, þá sníst það að trúa eða trúa ekki t.d. á Guð einfaldlega um val eða persónulega skoðun manns sjálfs. Við trúum á Guð, ef það er okkar val að trúa svo. Við trúun að Guð sé ekki til, ef það er okkar val að trúa svo. Þar sem þetta er eins og ég segi í grunninn skoðun, þá finnst mér engin ástæða til að vera með einhvern pirring þó sumir aðhyllist aðra skoðunina og einhverjir aðrir hina. Persónulega sé ég engan rökrænan mun á þessum tveim skoðunum, enda er engin vísindaleg leið þekkt til að greina aðra skoðunina sem vitleysu.

Það eina í þessu sem mér finnst órökrétt, er þessi tilfinning sem sumir hafa "að þeir hafi rétt fyrir sér." Ég á við fólk sem í reynd lítur framhjá hinni röklegu óvissu sem í reynd ríkir. Þessu virðist líka fylgja sú ákveðna afstaða að hin skoðunin sé algert frat. Einstaklingar innan beggja hópa gerast sekir um þetta tiltekna athæfi, sem ég sé sem jafn órökrétt í báðum tilvikum.

Einar Björn Bjarnason
stórnmálafræðingur

Nafnlaus sagði...

Eitthvað hefur stjórnmálafræðingurinn misskilið söguna hans Dawkins (sem var reyndar tilvitnun í Bertrand Russell). Sagan er einungis til þess að sýna hvers vegna agnostík er órökrétt.

Einar sagði...

Það er algeng röksemd, étin t.d. upp eftir prófessor Dawkins, að engin rök séu til fyrir tilvist Guðs. Það má reyndar einnig benda á, að engin leið er til að ganga úr skugga um hvað er fyrir utan þennan alheim, sem ekki stoppar alheimsfræðinga í því að rökræða mismunandi hugmyndir um hvað annað gæti verið til en þessi alheimur. Auk þessa, má benda á að eðli ljóshraðans er það að engar upplýsingar um alheiminn geta borist hraðar en ljósið, sem þíðir að allar upplýsingar okkar um alheiminn eru gamlar og hugsanlega úreltar.

Ímyndum okkur nú að svokallað 'multiverse' sé raunveruleiki, og það virki þannig að nýir alheimar séu stöðugt að myndast út frá þeim alheimum sem fyrir eru, þannig sem dæmi að það geti verið að fjöldi alheima hafi þegar myndast út frá þessum án þess að raska honum, og að síðustu að þetta ferli hafi gengið þannig fyrir sig óendanlega lengi. Þannig erum við einfaldlega í alheimi sem er heppilegur fyrir líf, ekki meira um það að segja. En varðandi spurninguna um guð, vegna eðli þess óendanlega hlýtur allt það sem er mögulegt að hafa gerst einhvers staðar í ferlinu. Þannig, ef það er yfirleitt hægt, þá hljóta í einhverjum alheiminum vera til verur sem hafa í gegnum rannsóknir sínar á tilurð alheima komist að því hvernig er hægt að "triggera" myndun nýs alheims eða big bang út frá þeirra eigin, segjum að þeir hafi gert þetta í tilraunaskyni þar til þeir lærðu að stjórna alveg ferlinu, að viðhalda vissri stjórnun á og valdi yfir þróun þess eða þeirra alheima sem þeir voru að búa til. Ályktun, þá væri samskipti þeirra við alheima sem þær búa til orðin sambærileg við þau samskipti við okkar alheim sem mörg trúarbrögð segja að samskipti Guðs séu.

Svona skemmtilegur leikur að einni þeim hugmyndum um alheiminn sem ræddar eru.

Einar Björn Bjarnason
stjórnmálafræðingur

Nafnlaus sagði...

Er að vissu leyti sammála Mengellu. Öll hugmyndafræði getur verið afsökun og/eða ástæða fyrir voðaverkum. Sum hugsanlega meira en önnur. "Vont" fólk mun gera vonda hluti alveg sama hvaða hugmyndafræði það aðhyllist. Hinsvegar er hægt að fá "gott" fólk til að gera vonda hluti með hugmyndafræðinni sem það aðhyllist.