Um Mengellu I: Heimsku mannanna
Birgir skrifar boðaðan pistil á Vantrú sína. Hann vill réttilega skerpa fókusinn á deiluefninu svo að umræðan fari ekki um víðan völl. En þar með lýkur hinum réttu vinnubrögðum. Hann eyðir mestu plássi í að rífast við vofu, sem ég vakti ekki upp - og kemur mér ekkert við.
Hann segir:
Þarna greinir okkur Mengellu á. Hún virðist trúa þeim áróðri boðenda trúarinnar að boðskapurinn sé fagur í sjálfu sér, en það séu einfaldlega heimskir menn sem dragi þessar fögru hugmyndir niður í svaðið og hegði sér svo á ómanneskjulegan hátt í samræmi við eigin skrípamynd af hugmyndunum.
Það er skemmtilegt að Birgir noti sögnina að trúa í þessari snyrtilegu rökvillu þar sem hann reynir að gera mig að ginningarfífli trúboða. En hér er Birgir óralangt frá markinu. Við vorum að rökræða hvort trú væri í sjálfu sér skaðleg. Ef við nálgumst þetta nú vísindalega (eins og Vantrúarmönnum ætti að vera gleðiefni), þá verðum við að einangra breytuna sem rannsaka á.
Birgir, er eins og maður, sem vill sanna að sveppir séu eitraðir með því að drepa hvern smakkarann á fætur öðrum á eggjakökum, sem vissulega innihalda sveppi. Gallinn er, að það eru um tuttugu önnur innihaldsefni í hverri köku. Hann er því ekki að sanna neitt. Þú sannar ekki að trú sé í sjálfri sér skaðleg, með því að benda á voðaverk trúaðs fólks, ekki einu sinni þótt fólkið hafi framið voðaverkin í nafni trúar sinnar.
Trú er einlæg játun skoðunar, sem ekki verður sönnuð með óyggjandi rökum. Að vísu er hægt að skilgreina hana á ótal aðra vegu. Það getur verið einhverskonar trú, án þess hún sé einlæg, og eins má víkka hugtakið út í trú t.d. á óskeikulleik páfa. En slík hugtök eru subbuleg og ónákvæm.
Birgir snýr á haus lýsingu minni á því hvernig greint fólk geti komist til trúar. Ég lýsti því svona:
Fólk fær hugboð eða opinberun um einhver sannindi. Það trúir á þau. Þessi sannindi geta verið margvísleg.
Þetta fólk getur síðan fundið samsvörun í skipulögðum trúarbrögðum við grundvallarskoðanir sínar. Þannig getur það laðast að hugmyndinni um æðri mátt, helgi lífsins, kærleiksboðorðið eða bænina og því farið að iðka kristna trú, islam eða eitthvað annað. Þetta fólk er ekki að gera neitt annað eða verra en Queen-aðdáandi eða fylgjandi Liverpool. Það hefur tiltekið fyrirbæri upp á stall í nokkurskonar dýrkun sjálfu sér til ánægju og fróunar án þess að hafa endilega haldbær rök til að réttlæta sitt val umfram val fólksins í næsta húsi. Og án nokkura pottþéttra raka til að réttlæta tignunina sem slíka. Það trúir einfaldlega að kristin trú sé í samræmi við mikilvægar lífsskoðanir, það trúir að Queen sé til marks um mikilvæga dægradvöl og Liverpool sömuleiðis. Og þetta er allt í himnabesta lagi.
Þið í Vantrú berjist gegn hindurvitni og hjátrú. Þið berjist gegn skaðlegum fylgifiskum trúarbragðanna og þið berjist fyrir óþvinguðum rétti fólks til trúar. Um allt þetta er ég fullkomlega sammála ykkur. Enda var ég ekki að tala um starfsemi Vantrúar. Ég var, svo ég bendi á það einu sinni enn, að tala um þá hugmyndafræði, sem liggur til grundvallar hugsjóninni hjá mörgum ykkar. Hugmyndafræði, sem oft sést í gegnum annars málefnalegan málatilbúnað og einkennist af sleggjudómum.
Hér er raunar einkennileg samsvörun eða hliðstæða. Ég veitist að þeim persónulega grunni sem fær menn til að fylgja málstað Vantrúar. Birgir skilur það ranglega, sem árásir á starf Vantrúar. Ég er að fjalla um þann persónulega grunn, sem fær fólk til að aðhyllast einhver trúarbrögð, Birgir heldur að umfjöllunarefnið sé starfsemi trúarbragðanna.
Birgir þarf að stilla fókusinn á hið rétta deiluefni. Og til að hjálpa honum eru hér örfáar spurningar, sem ég bið hann að svara.
1. Við höfum hæfileikann til að hafa það sem sannara reynist. Hvers vegna ættum við að gera það? Eigum við að gera það alltaf?
2. Getur greint fólk fylgt fótboltafélagi svo dyggilega að málum að það taki þátt í seremóníum eins og fjöldasöng og ópum og köllum? Er fótbolti trúarbrögð?
3. Getur trúlaus maður skapað sinn eigin tilgang með lífinu? Hvað er það, sem fær hann til að velja þann tilgang umfram tilgang nágrannans? Geta gáfaðir menn skapað sér misvísandi tilgang?
Birgir má svo spyrja mig beinna spurninga og ég mun ekki koma mér undan því að svara beinskeytt.
7 ummæli:
Þetta fer að minna á nýlega skoðanakönnun í The Onion: "Finally, concrete proof that religion exists!"
Sæl Mengella
Ég held að munurinn á trúarbragðahreyfingum og bulluhreyfingum felist aðallega í því að tilvist yfirnáttúru felist ekki í því síðarnefnda. Hvergi tala Liverpool aðdáendur um einhvern Liverpool-guð, né halda Queen-aðdáendur því fram að sál Freddie Mercury svífi einhvers staðar yfir vötnunum. (Mögulega halda einhverjir nöttarar því fram, en það er kannski annar handleggur).
Hvað spurningarnar varðar: Ég myndi svara þeirri fyrstu játandi. Prófum kannski að snúa henni við: Hvers vegna ættum við ekki að velja það sem sannara reynist? Það er vissulega mjög mannlegt og í raun þröngsýnt að vera að skilgreina sannleikann í einni hendingu sem þessari. Kannski hvít lygi fái hér undantekningu, eins loðið og það nú er að skilgreina hana.
2. Nei, fótbolti eru ekki trúarbrögð, aðeins mikill áhugi. En það tekur að sjálfsögðu þátt í seremóníum, það þýðir þó ekki að um trú á guði sé að ræða.
3. Já, þann tilgang að njóta eigi lífsins eins og maður getur. Það er engu að síður afskaplega afstætt að þurfa að sjá tilgang með öllu; þegar fornmenn veltu því fyrir sér hvers vegna rigndi komust þeir að þeirri niðurstöðu að plöntur hlytu að þurfa á vatni að halda.
Hmm, af hverju skyldu áhangendur Liverpool hafa gefið Robbie Fowler viðurnefnið "God"?
Áður en ég svara þessu innleggi þínu beint, ætli sé þá ekki rétt að "stilla fókusinn á hið rétta deiluefni".
Felst ekki ásteytingarsteinn okkar alfarið í því að ég tel innrætingu vondra skoðana skaðlega, en þú vilt fría skoðanirnar sjálfar af illri framgöngu þeirra sem þær hafa og flytja ástæðuna yfir á persónulegt plan hvers og eins? Að t.d. sá sem ill verk fremur í nafni kristninnar sé ekki sannkristinn?
Ég velti því svona fyrir mér hvort ekki sé nægilegt að annað hvort okkar fallist á sjónarmið hins í nákvæmlega þessum efnum og þá sé enginn ágreiningur lengur. Er þetta rétt metið hjá mér?
Sæll, Birgir.
Nei, þetta er ekki deiluefnið. Ég tel einnig innrætingu vondra skoðana skaðlega.
Það eina sem ég held fram er það að trú sem slík geti verið skaðsöm, skaðlaus eða gagnleg, allt eftir samhenginu.
Að margir meðlimir Vantrúar telji að trú, sem slík, sé slæm og hana skuli forðast.
Ég vil meina að flest það, sem er skaðlegt við trúarbrögð sé ekki bein afleiðing trúar heldur sameiginlegrar heimsku mannanna auk annarra ofur jarðbundinna fyrirbæra.
Í raun má stilla fókusinn á eftirfarandi fullyrðingu. Ég held því fram, að það sé ekki grundvallarmunur á manni, sem tekur trú tilgang með jarðlífinu (og sér þann tilgang endurspeglast t.d. í kærleiksboðorði kristninnar) og öðrum manni, sem trúir á mátt eigin skynsemi og tekur upp sverðið fyrir upplýsingu, gegn fávisku.
Já, en Mengella mín, við erum alltaf að gagnrýna hið skaðlega í fari trúarinnar og það er margt og mikið. En svo má velta því fyrir sér hvort það sem gagnlegt telst við trúarástundun sé eitthvað gagnlegt þegar upp er staðið.
Það er nefnilega þannig að enginn tekur upp á því að sjálfsdáðum að leita huggunar í Jesú Kristi eða öðrum goðmögnum. Tilvist þessara hluta á sér alfarið rætur í innrætingu þeirra sem starfa á vegum trúarstofnana. Börn eru tekin og þeim kennt að án tilbeiðslu á goðmögnum geti þau ekki verið friðþæg og hamingjusöm. Eða með orðum Pjeturs G. Guðmundssonar:
„Ekkert barn í þessu landi á nokkursstaðar friðlýstan blett eða hæli gegn áróðri [...] atvinnu-trúmanna. Þeim er hið mesta kappsmál að vekja vanmáttartilfinninguna sem víðast og mest, og sem fyrst hjá hverjum manni, svo trúin fái þar jarðveg að vaxa í. Með þessu eru þeir vitandi - og þó reyndar langtum fleiri óvitandi - að búa til mein, svo trúnni gefist sem flest tækifæri til að græða mein.“
Ég held að þegar menn byrja að skoða hug sinn á heiðarlegan hátt komist þeir að því að þessi gagnsemi sem búið er að reka áróður fyrir í eyru þeirra alla ævi sé blekking. Og hverjir eru það sem græða á þessari blekkingu nema þeir sem starfa við það að viðhalda henni? Í krafti þessarar blekkingar sogar t.d. Þjóðkirkjan til sín fjóra milljarða á ári svo hún geti læknað ímynduð mein á mannssálinni. Aðrir trúarsöfnuðir liggja síðan í peningaveskjum þeirra sem búið er að blekkja. Skaðsemi og aftur skaðsemi. Og ekki má gleyma nýaldarliðinu með alla sína rándýru gagnsemi.
Þannig er hugmyndin um gagnsemi trúarhugmynda/ástundunar líka skaðleg. Það er verið að selja fólki lækningu við einhverju sem ekkert er. En þeim sem raunverulega eiga við erfiðleika að stríða í sálarlífinu er betur borgið í höndum fagfólks á sviði sálrænnar og félagslegrar meðferðar heldur en presta sem þykjast geta „læknað ör á sálinni.“
En þótt okkur Vantrúarfólki finnist trú og trúarástundun bæði gagnslaus og óæskileg í sjálfu sér, þá er það fyrst og fremst boðunin sem við berjumst á móti, sér í lagi boðun til ungra barna. Þá sem ekki ganga um og boða þessar hugmyndir látum við í friði, gefi þeir sig ekki beinlínis á tal við okkur eða beini á annan hátt að okkur spjótum eins og þú nú nýlega.
Birgir.
Ég ítreka í enn eitt skiptið. Við erum sammála um megnið af starfsemi ykkar. Það, sem ég gagnrýndi, var enda ekki hún, heldur hin persónulega tenging við málstaðin, sem ég tel í mörgum tilfellum til marks um vanþroska.
Í þessum pistli þínum eru í raun aðeins tvær tilraunir gerðar til réttlætingar á baráttunni.
Önnur er nytjarök, þ.e. um ógagn af trúarbrögðum. Hitt er óleyfileg alhæfing, þar sem þú gefur þér að í ljósi alls þess ógagns, sem trú hafi valdið, sé rétt að álykta hið sama um alla trú.
Enn tekst þér ekki, að greina kjarnann í trú.
Ég spyr því: Hvað felst í því að trúa?
Þar býr kjarninn í gagnrýni minni á ykkur.
Skrifa ummæli