24. júlí 2007

Dawkins i bobba



Ég kom óvænt inn í þátt af HARDtalk á BBC og sá hvar Stephen Sackur gerði sitt ýtrasta til að rekja garnirnar úr títtnefndum Richard Dawkins. Mér þótti nokkuð til Dawkins koma, þar sem hann vék sér fimlega undan hverju spjótalaginu á fætur öðru. Sackur átti í megnustu vandræðum með að koma á hann stungu. En skyndilega kom spurning sem Dawkins átti í miklum vandræðum með. Látbragð hans breyttist, hann varð flóttalegur til augnanna og málrómurinn einkenndist ekki af sömu vissu og áður. Spurningin var raunar snilldarlega einföld. Hún var svona (í tilhlýðilegri umritun minni):

„Þú hefur haldið því fram, að drifkraftur lífsins sé darwinísk þróun þar sem sjálfselsk gen eru í aðalhlutverki. Öll starfsemi genanna hnitast um sjálfselskan tilgang og þau hafa áhrif á athafnir og hugsun lífvera. Ef við gefum okkur að þú hafir rétt fyrir þér, þá er sólu særra að trúarbrögð leika augljóst hlutverk í þessum tilgangi genanna. Hvers vegna ertu þá að pönkast á móti þeim?“

Eina svar Dawkins var það, að mikilvægi trúarbragða fyrir þróunarlegan tilgang mannanna gerði þau ekki sönn. En hér er Dawkins í virkilegum bobba. Ef hugsun manna mótast af markmiðum sjálfselskra gena þá eru það sömu genin sem gera okkur kleift að greina á milli þess, sem rétt er og rangt er, og hneigja fólk til trúar. Með því að berjast gegn trúarbrögðum er Dawkins því að berjast gegn hinum sjálfselsku genum. Það þarf ekki að framlengja þessa hugsun langt til að sjá, að Dawkins er í æði vandræðalegri stöðu.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ha! Mín trúlausu gen munu sigra þín trúuðu gen!

Dagur Bergsson sagði...

Má hann ekki alveg berjast gegn hinum sjálfselsku genum? Og eru það ekki einhver sjálfselsk gen sem reka hann til þess? Hmm, kannski eru þau ekki svo sjálfselsk eftir allt!

Nei, ég held að hann hefði alls ekkert þurft að lenda í vandræðum út af þessu, þó honum hafi brugðið við spurninguna. Ef hann hefur rétt fyrir sér varðandi genin þá eru það einhver gen sem reka hann til þess að berjast gegn trúarbrögðum, ekki satt? Og einhver gen, væntanlega einhver önnur gen þá, sem hneigja annað fólk til trúarbragða. Ég get ekki séð að hann sé í einhverri vandræðalegri stöðu.

Darwinísk þróun er random þróun og það sem virkar best lifir af. Nú finnst Dawkins að þessi pæling með trúarbrögð sé ekki að virka og að við þurfum að losna við þau. Þ.e.a.s. einhver gen Dawkins finnst að genin sem valda trúarbrögðum séu ekki að leiða í rétta átt.

Ég veit ekki, ég hef ekki lesið The Selfish Gene og kannski er ég að misskilja eitthvað. Persónulega finnst mér hann gera mögulega aðeins of mikið úr þessum genum.

Nafnlaus sagði...

"Eina svar Dawkins var það, að mikilvægi trúarbragða fyrir þróunarlegan tilgang mannanna gerði þau ekki sönn."

Hér er vonandi þversögn, Dawkins vegna.

Þróunarleg mikilvægi fyrirbæra sannar gildi þeirra.

En kostur þróunarkenningar Darwins felst í hve vel henni tekst að gera grein fyrir sundurleitustu fyrirbærum.

Galli hennar felst í hinu sama...

Allar mótbárur verða auð-samrýmanleg frávik.

En það er alltaf ánægjulegt þegar menn spinna flókinn vef til að fanga andstæðinga sína, en festast kyrfilega sjálfir í eigin túlkunarklístri...

Dagur Bergsson sagði...

"Einhverjum genum Dawkins finnst...", ekki "einhver gen...". Maður hefur séð fólk hankað á málfari og stafsetningu með þeim afleiðingum að enginn gaf inntakinu gaum, svo það er best að vanda sig.

Kristján Hrannar sagði...

Það hafa komið fram kenningar um þessa meintu þörf mannsins fyrir að trúa, sem felast í því að samfara þessari gríðarhröðu þróun mannsheilans hafi hugsanlega þær heilastöðvar sem innihalda vitundina orðið á eftir, þ.e. að mannsheilinn sé tilbúnari að leita skýringa á hlutum með guðum, öndum ofl. Það þyrfti þó að rannsaka þetta betur. Hvers vegna gætu trúarbrögðin ekki verið einhver genagalli?

Nafnlaus sagði...

Synd að Dawkins varð þarna kjaftstopp, það hefði verið svo auðvelt að svara þessu einhvern veginn svona:

http://www.vantru.is/2003/10/09/00.02/

En svo þú haldir ekki að ég sé sjálfur kjaftstopp í umræðum okkar, þá á ég þá skýringu til að hafa verið á ferðalagi. Ég fer á morgun í annað slíkt en eftir helgi er ég game í framhald.