30. júlí 2007

Das wohltemperirte Clavier



Bach er minn maður. Ég á mér tvö sérstök uppáhöld eftir hann. Goldberg-tilbrigðin (sérstaklega í léttgeggjaðri útsetningu Goulds, með tilheyrandi umli) og Das wohltemperirte Clavier (sem ég ætla ekki einu sinni að reyna að gefa íslenskan titil).

Í kvöld sat ég með ipodinn minn í fjölmenni og rissaði í mólskinnu einhver ómerkilegheit. Ég lét hendingu ráða röð laganna. Skyndilega varð ég vör við þögnina. Áður en ég gat aðgætt hver ástæðan væri upphófust hinir seyðandi tónar upphafs Das wohltemperirte Clavier. Eitthvað fékk mig til að lyfta höfðinu ofurvarlega og líta í kringum mig. Fyrir framan mig sat akfeit kona í svörtum, sniðlausum kjól. Varir hennar voru skærrauðar og augabrúnirnar skarpar, eins og þær væru klipptar til með garðklippum. Neðan úr holdugum eyrnasneplum héngu ljósakrónueyrnalokkar, sem vafalaust voru hannaðir með frýnilegri eintök kvenstofnsins í huga. Sú feita hafði engan háls svo orð væri á gerandi, svo glitrandi kögur eyrnalokkanna lyppaðist niður á þykkar axlirnar og rann í átt að gríðarstórum brjóstunum, sem börðust við að troða sér leið upp úr gleiðfleygna kjólnum.

Hún talaði án afláts við samferðarmenn sína en til mín barst ekki minnsti ómur af orðum hennar. Hljómur Bachs fyllti alla veröldina, hljóp hringi um feitu konuna. Smám saman sá ég ekkert nema taktfastar hreyfingar þessa skærlitaða munns. Augnablikið var fullkomið.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hljómar svipað og eina reynsla mín af að taka LSD, þá var allt svo fallegt og dásamlegt þangað til ég gekk framhjá sjónvarpstæki þar sem "Rithöfundurinn" Jean M Auel var að útskýra kynlíf hellisbúa og þá hrundi heimurinn minn til grunna.

Valtýr/Elvis2

Hildur Lilliendahl sagði...

Var þetta nokkuð ég aftur? Endilega sendu mér Das wohelmprenzel Chavium ef þú tímir. Það væri vel þegið, mig vantar að elska tónlist sem er ekki framin af þunglyndum (karlkyns) sólóartista með eitt hljóðfæri og væmna rödd.

Nafnlaus sagði...

Finnst þér mikilvægt að fólk hugsi um þig sem gáfaða? Af hverju heldurðu að það sé?

Nafnlaus sagði...

Hið jafnstillta hljómborð.

Nafnlaus sagði...

Eitthvað við form þessarar færslu sem sannar að þú ert ég.
- Rafz

Nafnlaus sagði...

Lol, þetta er æðislegt.

Þessi tónlist sem þú nefnir er einmitt mín uppáhaldstónlist. Flettu upp Glenn Gould á YouTube, ef þú hefur ekki þegar gert það. Það er endalaust hægt að horfa á hann.

Nafnlaus sagði...

Þessi færsla er tilgerðarlegri en alpahúfa.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þetta er kallað hófstillta klavíerið.

Nafnlaus sagði...

Jafnstillta klavíerið heitir það og var viðleitni Bach til að sanna að með jafnstillingu væri hægt að spila tónlist í öllum tóntegundum, en án jafnstillingar var það ekki hægt nema að endurstilla fyrir hverja tóntegund.

Unknown sagði...

en tónafórnin?

sexdollmarts sagði...

I want to buy a silicone love doll. I need the company of a lifelike sex dolls. Where can I buy sex toys for men?