13. júlí 2007

Að lesa yfir sig

Menning víðsvegar um heiminn líður fyrir oflestur menningarvitanna. Menn lesa of mikið og hugsa of lítið. Þetta gildir jafnt um bókmenntaheiminn og háskólasamfélög.

Lestur í hófi er til bóta. En of mikill lestur myndar móðu á skartsteinum mannsandans. Flest háskólafólk í dag er í hópi lágfleygra fugla. Vinnumaurar, sem nálgast viðfangsefni sín eins og leitarvélar á netinu. Í hugvísindum er ástandið þannig að flestar bækur, sem innihalda eiga fræ frjóleikans, eru steingeld uppflettirit, þar sem tíundað er hvað x, y og z hafa sagt um eitthvað tiltekið efni og klykkt út með því að stilla upp unninni skák. Einhver ómerkileg brella, sem sanna á að x, y og z hafi haft rangt fyrir sér og gjarnan sé lausnin einhver syntesa hugmynda þeirra.

Nú er augljóst, að ef heill fræðaheimur lætur efnistök sín snúast fyrst og fremst um kenningar x, y og z, þá verður ekkert til annað en sífellt fágaðari útgáfur af þeim takmörkuðu kenningum. Fræðimenn eru enda aldir upp í röngum vinnubrögðum. Í grunn- og menntaskólum er eini undirbúningurinn fyrir frekara nám sá, að fólki er kennt að skrifa heimildaritgerðir. Oft þannig að fyrst er sagt hve margar heimildirnar eigi að vera og hverskonar.

Frumleiki og framþróun þrífst ekki í því umhverfi að sest sé niður með bókastafla og hugsunin fóðruð. Þvert á móti á lesturinn að hætta um leið og maður fær hugboð um áhugavert efni. Síðan á að hugsa. Við hugsunina vakna spurningar og stundum má finna svör við þeim með lestri. En fyrst og fremst á að hugsa.

Fólk, sem safnar bókum, er oft eins og fólk sem safnar myllusteinum um háls sér. Bókaeigendur hefðu gott af því að losa sig við bókasöfn sín á fárra ára fresti. Margir, t.d. Vídalín og EÖN, snobba fyrir bókum. Þeir vaxa vonandi upp úr því. Báðir hafa vafalaust hæfileika í einhverjum mæli, en þeir hafa kosið að streyma sína leið í framræstu landi. Alvöruskáld skafa sín eigin gil en fara ekki eftir skurðum.

ÁBS hefur ekki enn vaxið upp úr bókasnobbi. Honum þykir enn mikið til þess koma að sjá nafnið sitt á bókarkápu. Hann veit samt, innst inni, að bækurnar eru aðeins hylki utan um hugsanir og orð. Og að hugsanirnar í útgefnu bókunum hans ferðast miklum mun minna um himinhvolfin en þau orð sem rata á bloggsíðuna hans.

Það er of lítið hugsað. Það er of mikið lesið. Háskólafólk leitar of auðveldra leiða til að uppfylla rannsóknar- og ritskyldu. Það reiðir of lágt til höggs. Það gerist baunateljarar.

Alvöru stórskáld hötuðu að þýða verk annarra. Jafnvel þótt enginn gerði það betur (sbr. Laxness og Birtíng). Of mörg íslensk skáld (á öllum aldri) eru í raun bara þýðendur. Rit þeirra eru ekkert annað en snaraðir innblástrar annarra.

Mætti ég biðja um smá frumleika?

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er þegar búinn að hrekja þessar kenningar þínar í ritgerð minni á http://www.elsewhere.org/pomo

Nafnlaus sagði...

"Að lessa yfir sig" - það hefði verið áhugaverð lesning. Annað en þetta raus þitt.

Þessi pistill er ekkert annað en endurtekið efni, um vandann við endurtekið efni og þá sem endurtaka efni.

Legg ég til að þú leggir pennanum í bili og farir að teikna. Það nenna fáir að rífast í þér lengur. Alltaf sömu örfáu einstaklingarnir. Það eru endurtekin rifrildi.

Mengella sagði...

Atli.

Ef það er eitthvað sem ég fyrirlít meira en andlaus skáld, þá eru það uppskafningar eins og þú. Fólk, sem heldur að það hafi eitthvað til málanna að leggja, af því að það kann að búa til tveggja krónu orðaleiki.

Af hverju í ósköpunum ætti mér að vera einhver akkur í því að rífast við blábjána eins og þig? Þvert á móti reyni ég ítrekað að blogga þannig að það fæli vanhugsandi bjöllukálfa af þinni sort í burtu.

En þú tekur ekki hintinu. Þessar færslur, sem þú nennir ekki að lesa, því þær höfða ekki til rifrildisgáfu smápeðanna sem kalla þig andlegan bróður sinn - eru vinsamleg ábending mín til þín að halda þig í burtu.

Mér leiðast fífl. Sérstaklega vanhugsandi, ólæs fífl sem vilja myndabækur.

Ágúst Borgþór sagði...

Mengella gefur sjaldan höggstað á sér. Þess vegna er sérkennilegt að sjá hana falla í þá gryfju að telja að útbreiðsla texta sé mælikvarði á hversu merkilegur hann er. Þessi slæmu rök eru innbyggð inn umsögn hennar um mig hér.

Mengella sagði...

ÁBS.

Þetta er reginmisskilningur. Ég var einungis að benda á þá augljósu staðreynd að fyrir þér hafi bókaútgáfa eigin verka fróandi áhrif, sem byggi umfram allt á fordild.

Taktu hvaða ódauðlega texta sem er. Textinn, eða hugsunin, er hundraðsinnum verðmætari en umbúðirnar. Vilji maður koma texta sínum á framfæri við verðuga lesendur notar maður til þess mörg ráð.

Og ég er svotil viss um það, að þú gætir komið góðum texta á meira flug á blogginu en með bókum. Ég hugsa, að þú sért meira lesinn á netinu á viku en á bókasöfnum eða heimilum á ári.

En þetta snýst ekki bara um textann/hugsunina, er það? Þetta snýst líka um hégóma, bókasnobb, og, að afar takmörkuðu leyti, peninga.

Nafnlaus sagði...

Hvernig er þá sunnudagurinn í tennis Ingólfur?

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Hötuðu stórskáld að þýða verk annarra? Hvaða stórskáld voru það? Ertu með góðan fínít lista yfir stórskáld sem annars vegar hötuðu að þýða verk og hins vegar elskuðu það, og hallar svo verulega á þá sem elskuðu það að rétt sé að álykta að þetta sé almenn regla?

Eða ertu að þrugla út í loftið af því þér finnst fullyrðingin, hversu lausu lofti sem þú greipst hana úr, hljóma "einhvern veginn sannfærandi"?

Þá er bókaklám gegnumgangandi sjúkdómur rithöfunda jafnt sem stórskálda, þó fólk fari misleynt með það - mörg stórskáldanna létu eftir sig, í krafti auðs og áhuga, gríðarlega mikil og merk bókasöfn.

Mengella sagði...

EÖN:

Nú hélt ég, að lesskilningur þinn væri betri en svo að ég þyrfti að benda þér á að fullyrðing mín stenst ef ég get bent á tvö alvöru stórskáld sem hötuðu að þýða. Af hverju ætti ég að þurfa að benda á þá sem elskuðu það? Og hverju gæti slíkur samanburður skilað? Þú hlýtur að þekkja a.m.k. tvö slík stórskáld sjálfur, almenn þekking.

Að eiga bækur er ekki það sama og að lesa þær. Mörg stórskáldanna voru í hefðbundinni áráttufróun þegar þau sönkuðu að sér bókum. En mörg notuðu líka bækur til að leita leiða að næstu bók, enda skáld löngum verið knúin áfram af þörfinni fyrir að halda sér í deiglunni.

Bækur eiga aldrei að verða meira en hækjur, en verða oft að hjólastólum.

Og allt sem ég sagði stendur, skáld, alveg eins og fræðimenn, lesa of mikið og hugsa of lítið, en hugsa samt of mikið um það sem þau lesa.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Jæja. Sosum ekki að öllu leyti ósammála þér.

Annars snýst þetta kannski ekki um að líka eða mislíka að þýða - frekar en þetta snýst um að líka eða mislíka að skrifa. Langflest skáld (og stórskáld) sem skrifa líkar sú iðja, og langflest skáld (og stórskáld) sem þýða líkar sú iðja. Á þessu eru undantekningar, sem gerir þær ekki að almennri reglu - er nokkurn veginn allt sem ég ætlaði að segja.

Annars mættu íslensk skáld, mörg hver, fyrir mína parta gera meira af því að snara innblástri utan landsteinanna inn í ljóð sín - vandamál íslensks skáldskapar er ekki síst þessi hómógen kúltúr sem gerir það að verkum að meira og minna allir eru undir áhrifum af sömu fyrirbærunum. Umræddir snaraðir innblástrar eru nefnilega nær undantekningalaust eitthvað sem mætti kalla tilraun til"frummyndar", í gríska skilningnum, af "íslenskri ljóðabók.

Sem enn sem oftar væri áhugavert, væri það gert með vilja, ef ekki bara gott.

Mengella sagði...

"Annars mættu íslensk skáld, mörg hver, fyrir mína parta gera meira af því að snara innblástri utan landsteinanna inn í ljóð sín - vandamál íslensks skáldskapar er ekki síst þessi hómógen kúltúr sem gerir það að verkum að meira og minna allir eru undir áhrifum af sömu fyrirbærunum."

Seinni hluti þessarar málsgreinar orðar nákvæmlega sömu hugsun og ég var að reyna að koma til skila.

Og síst er ég á móti því að þeir noti hjólastóla sem eru ógangfærir sjálfir.

Nafnlaus sagði...

Mikið rosalega eruð þið sammála.