15. mars 2007

Dagbók vitfirrings


Örstutt saga eftir vin vorn, Maupassant, ber titilinn Dagbók vitfirrings (Un Fou). Hún fjallar um virtan dómara sem gerist raðmorðingi og skráir afrek sín niður. Skriftirnar finnast eftir að dómarinn deyr og vekja mikinn hroll með mönnum. Hér er niðurlagið af þessari skínandi sögu:


30. júní.

Að drepa er lögmálið, því náttúran dáir eilífa æsku. Hún virðist öskra í öllum sínum óræðu athöfnum: ,,Fljótt! fljótt! fljótt!" því meiru sem hún eyðir, þeim mun meira endurnýjar hún sig.

2. júlí.

Það hlýtur að vera ánægjulegt, einstætt, fullt ákafrar fróunar að drepa, hafa fyrir framan sig lifandi, hugsandi veru; að gera í hana lítið gat - ekkert nema agnarlítið gat, og að sjá þennan rauða vökva sem er blóðið, sem er lífið; og hafa svo frammi fyrir sér lífvana haug af holdi, köldu, aðgerðarlausu, hugsunarlausu!

5. ágúst.

Ég, sem hef eytt lífi mínu í að dæma, fordæma, drepa með orðum mínum, drepa með fallöxinni þá sem drepa með hnífnum, ef ég myndi gera eins og allir morðingjarnir sem ég hef gert höfðinu styttri, ég … ég ... hver myndi vita það?

10. ágúst.

Hver gæti mögulega vitað það? Hvern myndi gruna mig, sérstaklega ef ég veldi manneskju sem ég vildi ekkert illt?

22. ágúst.

Ég gat ekki staðist það lengur. Ég drap lítið dýr í tilraunaskyni, sem upphaf.

Jean, þjónn minn, átti gullfinku í búri sem hékk í glugga skrifstofunnar. Ég sendi hann einhverra erinda og tók fuglinn mér í hönd. Í greip minni fann ég hjarta fuglsins slá. Hann var heitur. Ég fór til herbergis míns. Af og til herti ég tökin; hjartað sló örar; hann var hryllilegur og yndislegur. Ég hafði nærri kæft hann. En ég sá ekkert blóð.

Þá tók ég skæri, fíngerð naglaskæri, og ég skar hann á háls með þremur handarhreyfingum, afar varlega. Hann opnaði gogginn, hann reyndi að sleppa, en ég hélt honum, ó já, ég hélt honum ... ég hefði getað haldið óðum hundi ... og ég sá blóðið renna.

Þá gerði ég eins og morðingjar gera, alvöru morðingjar. Ég þvoði skærin og þvoði hendur mínar. Ég skvetti vatninu og tók líkamann, líkið, út í garð og faldi. Ég gróf hann undir jarðarberjarunna. Þar finnur hann enginn. Á hverjum degi get ég borðað jarðarber af þessum runna. Hve hægt er að njóta lífsins, kunni maður á því tökin!

Þjónn minn grét; hann hélt að fuglinn hefði flogið burt. Hvernig gat hann grunað mig? Ha!

25. ágúst.

Ég verð að drepa mann! Ég verð!

30. ágúst.

Því er lokið. Hve ákaflega auðvelt! Ég gekk um skóginn í Vernes. Ég var ekki að hugsa um nokkurn skapaðan hlut, ekki neitt. Taktu eftir! Barn á veginum, lítið barn að borða brauðsneið með smjöri. Hann hætti að borða til að fylgjast með mér ganga hjá og mælti: ,,Góðan dag, herra forseti."

Og hugsunin skaust upp í huga mér: ,,Ætti ég að drepa hann?"

Ég svara: ,,Ertu einn, væni?"

,,Já, herra."

,,Aleinn í skóginum?"

,,Já, herra."

Löngunin í að drepa hann kom mér í vímu eins og vín. Ég nálgaðist hann afar blíðlega, þess fullviss að hann myndi reyna að flýja. Skyndilega greip ég um háls hans. Hann greip um úlnliði mína með litlu höndunum sínum, líkami hans engdist til eins og fjöður í eldslogum. Síðan hætti hann að hreyfa sig. Ég henti líkinu í skurðinn og huldi það með gróðri. Ég snéri heim og naut kvöldverðarins. En auðvelt! Um kvöldið var ég afar kátur, yngdist allur upp og eyddi kvöldinu á Prefects. Þeim fannst ég skemmtilegur. En ég hef ekki séð blóð, ég er ekki í rónni.

31. ágúst.

Þeir fundu líkið. Þeir eru að leita morðingjans. Ha!

1. september.

Tveir flækingar hafa verið handteknir. Það vantar sannanir.

2. september.

Foreldrarnir komu að hitta mig. Þau grétu! Ha!

6. október.

Allt er á huldu. Einhver flækingur sem átti leið um hlýtur að hafa gert það. Ha!

Mér finnst einsýnt að hefði ég séð blóð væri ég rórri núna!

10. október.

Annar! Ég var á göngu við ána, eftir morgunverðinn. Þá sá ég veiðimann sofandi undir pílviðnum. Það var hádegi. Skófla stóð í kartöflugarði þar nærri líkt og hún væri ætluð mér. Ég tók hana. Ég snéri aftur; ég hóf hana til lofts eins og kylfu og með einu höggi eggjarinnar klauf ég höfuð veiðimannsins. Ó, honum blæddi … þessum blæddi! Rósrautt blóð. Það seytlaði rólega í vatnið. Ég gekk burt, þungt hugsi. Hvað ef einhver hefði séð mig! Ó, ég hefði orðið fyrirtaks morðingi.

25. október.

Veiðimannsmálið hefur valdið miklum usla. Frændi hans og veiðifélagi hefur verið ákærður fyrir morðið.

26. október.

Rannsóknardómarinn hefur ályktað að frændinn sé sekur. Allir bæjarbúar trúa honum. Ha! ha!

27. október.

Frændinn ver sig illa. Hann fullyrðir að hann hafi farið í bæinn til að kaupa brauð og osta. Hann sver að frændi hans hafi verið drepinn í fjarveru hans. Hver ætli trúi því?

28. október.

Frændinn hefur gert allt nema játa, þeir hafa algerlega ruglað hann í rýminu! Ha! Réttlætið!

15. nóvember.

Það eru yfirþyrmandi sannanir gegn frændanum, sem er erfingi frænda síns. Ég á að sitja í dóminum.

25. janúar 1852.

Heill dauðanum! Dauðanum! Dauðanum! Ég lét dæma hann til dauða. Yfirmálaflutningsmaðurinn mælti eins og engill. Ha! Enn einn! Ég ætla að sjá hann tekinn af lífi.

10. mars.

Því er lokið. Þeir settu hann í fallöxina í morgun. Hann dó mjög vel, einstaklega vel. Ég gladdist mikið. En indælt að sjá mann missa höfuðið! Nú bíð ég, ég get beðið. Það þarf svo lítið til að ég náist.

6 ummæli:

Hermann Stefánsson sagði...

Vorleg og frískandi lesning.

Nafnlaus sagði...

Jamm, skrýtin tilviljun. Var að klára Les âmes grises eftir Philippe Claudel. Ákaflega ómórölsk saga. Hér er morðinginn saksóknari sem klínir barnamorði á uppá sakleysingja.

Nafnlaus sagði...

Takk Mengella, þú ert bestur þegar þú gerir svona!

Nafnlaus sagði...

Fannst nú Græna banalegan betri. Þessi færsla virkar á mig eins og Mengella sé blóðrunkandi bókmenntafræðinörd.

Nafnlaus sagði...

Lengi leiddist mér þófið
þegar Mengella bauð á sér
þurrlegt klofið.

Og Doddi litli í ævintýrunum
á samstæðuspilunum,
myndir af froskum, öndum,
kettlingum og fjólubláum kúm.

Lengi leiddist mér og honum Dodda.
Hann hafði verið efnilegur
í fótbolta, og ef minnið bregst mér
ekki, þá leikið í treyju númer sextán.

Hann langaði að vera í sókn,
en var alltaf settur í vörn.
Enda hafði pabbi hans verið
eilítið vondur og ósanngjarn
(ef þú veist hvað ég meina).

Lengi leiddist mér þófið.
Ég læddist inn í klefa,
og laumaði kláðakremi í brækurnar.

Og Doddi litli

varð aldrei samur.

Nafnlaus sagði...

Blóðrunkandi bókmenntafræðinörd? Mjög sennilega.