5. mars 2007

Sönn saga úr daglega lífinu

Á fjörur Barnalands rekur stundum slípaða skrautsteina. Einn slíkur er stórkostleg saga, sem er nær örugglega dagsönn, um konu sem brá sér í mat á veitingastað í borginni. Hún er svona:

Kona ein í fryggðarhug dembdi á spúsa sinn ástleitnum augum, setti stút á munninn og hóf þvínæst upp raust sína: „Elskan mín, eigum við ekki að borða úti til hátíðarbrigða?“ Spúsinn kenndi góðan hug kvinnu sinnar og tók lofsamlega undir orð hennar, hrósaði henni fyrir ráðvendni og hugmyndaauðgi og gaut augunum flóttalega að ósnertu hádegisuppvaskinu. Karlinn valhoppaði að símanum, lauk greip sinni um tólið og fletti í gulu síðunum með fingurgómum lausu handarinnar. „Langar þig í ítalskt, dúllan mín?“ kallaði hann að kvinnu sinni, sem sat og reimaði á sig skóna. „Mér er alveg sama“ hrópaði hún til baka og herti á lykkjunni um leið. „Nei, fáum okkur eitthvað sterkt.“ sagði karl, mestmegnis við sjálfan sig og síaði út símanúmer hins útvalda veitingastaðar með áræðnum glyrnunum. Hann hringdi. Hann pantaði borð.

Alla leiðina á veitingastaðinn voru skötuhjúin í ógnargóðu skapi. Hún söng hástöfum með lögunum í útvarpinu. Hann trommaði undir á stýrið.

Þau renndu upp að veitingastaðnum í hálfrökkri og voru svo heppin að fá strax stæði. Vonarbirta ljómaði út um glugga vertshússins. Maðurinn bauð maninu arminn og saman leiddust þau inn um anddyrið.

Brosin stirðnuðu á andlitum þeirra. Greiðasalan var í óreiðu. Glysklæddir þjónar hlupu ráðvilltir fram og aftur. Enginn veitti hjónakornunum minnstu athygli. Á strjálum borðum sat feitt fólk, með enn feitari börn, og graðgaði í sig eldpipraðan og fitugljáðan matinn. Við barinn sat einmana boldungs barfluga og sötraði af glasi. Barþjónninn stóð álengdar og pússaði glös.

Til að bæta gráu ofan í svart ruddist framhjá þeim svartklæddur hópur uppskafinna skoffína sem samstundis dró að sér athygli þjónanna. Svartstakkarnir voru sestir og komnir úr jökkum og kápum og enn gaf enginn unga parinu gaum. Spúsinn sá sitt óvænna, þandi út brjóstið og greip um olnboga svitastorkins og bólugrafins þjónsræfils. Hann heimtaði borð af honum með þjósti. Þjónninn tvísté örvinglaður nokkra stund en teymdi loks parið að lágstemmdu borði sem hvíldi í skugga feitvöxnu barflugunnar. Angan af ilmsteinum barst frá salerninu sem lónaði nokkra faðma í burtu. Unga parið settist og þjónninn skottaðist eftir matseðlum. Fituhlassið snéri þykkum hnakkanum til að líta á þau og hálffellingafalið bros opinberaði skort á framtönn. Með erfiðismunum snéri hún höfðinu aftur til baka, sökk ögn dýpra á barstólinn og lágvært söturhljóð ómaði um veitingastaðinn.

Kiðfættur kom þjónninn til baka með matseðlana. Hann rétti manninum annan seðilinn og með hörkudrætti í andlitinu handlangaði maðurinn seðilinn til konu sinnar og þreif hinn úr höndum þjónsins. Þjónninn gerði sig líklegan til að flögra á braut en maðurinn sagði skipandi: „Bíddu.“ Þjónninn þjappaði niður fótunum. „Við ætlum að fá kjúklingavængi. Í forrétt. Og bjór. Eitt glas af bjór og eitt af dæetkók.“ Þjónninn meðtók skipunina og gerði sig líklegan til að taka matseðilinn aftur. Maðurinn sleppti ekki takinu og einblíndi á aðalréttalistann. Þjónninn læddist á braut.

Ró færðist yfir unga parið. Kliður frá feitum, smjattandi börnum og lágvært sorlhljóð frá barnum myndaði ögn rómantíska umgjörð. Þau horfðust í augu og töluðu í hálfum hljóðum um lélega afgreiðslu og krefjandi aðalréttaval. Þau voru einmitt að byrja að ræða enn á ný um vanhæfni þjónsins, þegar hann kom skoppandi með ilmandi kjúklingavængi á fati. Þau litu upp og í sömu mund heyrðist marr í barstól fiskiflugunnar. Sex augu störðu á kryddaðan matinn á bakkanum. Tvö þeirra litu undan og héldu áfram að rangeygjast ofan í glas.

Þjónninn gekk á braut með skrifblokkina ögn þyngri af grafíti og blýantinn sem því nam léttari. Parið gæddi sér á vængjunum. Vel hirtar tennurnar slitu í sundur vöðvavef og sinar og skófu grunn för í beinpíplur fuglsins. Þau rifu hverja kámuga kjöttæjuna af annari af festingum sínum og svolgruðu niður með ísköldum veigunum. Notaleg kennd hríslaðist um líkama þeirra. Þeim fipaðist hvorki við að akfeitur krakki í þverröndóttum bol rúllaði framhjá þeim inn á klósettið né að barflugan slengdi rasskinnunum á barstólinn til skiptis með tilheyrandi braki. Hún var byrjuð að merjast undan eigin þunga.

Sæl hölluðu þau sér aftur á bak í sætunum og ýttu diskunum frá sér með þófum lófa sinna. Á diskunum lágu kjöttætt, hálfnöguð bein. Þjónninn kom glaðlegur askvaðandi enda greindust sinnaskiptin á þeim úr órafjarlægð. „Aðalrétturinn er á leiðinni.“ upplýsti hann þau brosandi. Þau brostu til baka.

Þjónninn gekk glaðsinna af stað með tæjur mannsins, konan ákvað að naga sínar ögn betur. Þau horfðust í augu. Skyndilega kvað við brestur mikill þegar barflugan setti allan sinn þunga á hægri rasskinnina og hallaði sér pískrandi í átt að þjóninum: „Pssssst!“ Þjónninn nam staðar og leit í augu flugunnar. „Hérna, þessi bein sem þú ert með...“ sagði hún ögn drafandi röddu. „...hérna, hvað ætlarðu að gera við þau? Ég meina. Má ég kannski fá þau? Til trúariðkana sko.“

Þjónninn var sem steinrunninn. Hann hagræddi takinu á diskinum og leit örsnöggt í átt að borði elskendanna. Honum mætti hrein forundran á formi augnaráðs. Það virtist kveikja í honum ljós og í flýti veitti hann fituskassinu afsvar og hraðaði sér í burtu.

Hægt og rólega runnu sjónir hjúanna upp skvapholda kvenmanninn þar sem hún hlunkaðist með brosgrettu neðan af stólnum. Átökin gerðu hana móða. Hún gekk vaggandi að borði þeirra og leit ekki af hálfnöguðum beinastúfum konunnar. Hún var komin þétt uppað þeim. Þung remma barst úr vitum hennar og henni var þungt um andardrátt. „Sæl, vinan.“ Orðin bergmáluðu úr digrum barka hennar. „Ég sé að þú ert með kjúklingabein. Viltu nú ekki leyfa mér að eiga þau? Ég nota þau til trúariðkunar.“ Hún brosti svo að ekki skein í tennurnar sem hana vantaði.

Unga konan sat lömuð með hálfnagað bein á milli tveggja fingra. Lystin var þorrin. Hún sleppti beininu og mjakaði diskinum í att til hlussunnar. Brosandi fór flykkið einbeittum höndum um diskinn og stóð upp aftur með lófana fulla af hræi kjúklingsins. Án þess að nefna orð af vörum hljóp hún eins hratt og stubbarnir báru hana inn á salernið. Unga fólkið horfði á eftir henni.

Þjónninn kom með aðalréttina. Horfði glaður á auðan barstólinn og skildi ekkert í fálæti hjónanna. Undrandi tók hann tóman forréttadiskinn og gekk í burtu. Parið sat lengi vel án þess að yrða. Loks áræddu þau að handleika amboðin og kroppa í aðalréttinn. Í sömu svifum sveiflaðist upp salernishurðin og út kom ferlíkið sjálft, enn með beinin í hendinni en óræðan ánægjusvip á smettinu. Barflugan flögraði sem leið lá framhjá borði þeirra án þess að svo mikið sem að líta á þau. Ungu konunni varð ómótt. Á andliti skassins sá hún greinilega fitubrákina og úr öðru munnvikinu lafði kjúklingasin. Í lófanum bar hún gljáfægð og uppnöguð beinin.

Hin rómantíska máltíð tók þar með bráðan enda.

4 ummæli:

Ágúst Borgþór sagði...

Þú ert ekki nógu góð fyrir Barnaland. Þú lést reka þig þaðan. Það er ógeðslega fyndið. Þetta er eins og vera ekki nógu fínn fyrir 3ja farrými.

Mengella sagði...

Ég er gráti næst.

Nafnlaus sagði...

"Þú ert viðurstyggileg," hrópaði unga konan. "Þú ert ekki nógu góð fyrir ... fyrir Barnaland!" æpti hún frávita af óhug um leið og skvapholda kvendið ók líkama sínum í áttina að borðinu þeirra. "þú ... þú ...!" en hún kom ekki upp aukateknu orði því hún brast í grát. "Þetta veitingahús er ... er ... Þú ert afæta og það sem þú sagðir um trúariðkanir er bara ekki satt! Þú ert ekki nógu fín fyrir 3ja farrými." Eiginmaðurinn ungi hugsaði með sér að jafnvel þótt rómantíkin sem svifið hafði yfir vötnum meðan þau sátu að snæðingi væri horfin gæti hann ef til vill bjargað því sem bjargað yrði af kvöldinu. Hann sagði: "Það er nú ekki allt við barna hæfi á Barnalandi." "Jú, ég segi það satt," hvein í hlassinu sem beindi máli sínu til eiginkonunnar. "Það voru trúariðkanir." Bros lék um varir mannsins. "Nú leikur mér nokkur forvitni á að vita hvað þú varst að gera með beinin á salerninu," sagði hann.

Nafnlaus sagði...

Síðasta komment var snilld.